Innlent

Loka tímabundið fyrir umferð eftir Vesturlandsvegi

Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir eða snjóþekja er nokkuð víða í uppsveitum Suðurlands samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum. Hálka og þoka er á Kleifarheiði.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Snjóþekja og snjókoma er á Vatnsskarði og snjóþekja á Þverárfjalli.

Á Norðausturlandi er hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði. Snjókoma og éljagangur er á Víkurskarði og allt austur að Biskupsháls.

Á Austurlandi eru flestir vegir að verða auðir en þó eru hálkublettir á Borgarfjarðarvegi og Breiðdal.

Í dag, miðvikudaginn 1. febrúar og á morgun fimmtudaginn 2. febrúar verður unnið við að fjarlægja undirslátt undan brúargólfi göngubrúar yfir Vesturlandsveg við Krikahverfi í Mosfellsbæ.

Vegna þessa þarf að loka tímabundið fyrir umferð eftir Vesturlandsvegi undir brúna. Lokað verður annarsvegar við hringtorg að Lágafelli og hins vegar við hringtorg við Hafravatnsveg. Miðvikudag 1. febrúar verður akbraut fyrir umferð til Reykjavíkur lokað frá kl. 13:00 til kl. 16:00 og á morgun fimmtudag 2. febrúar verður akbraut fyrir umferð frá Reykjavík lokað frá kl. 13:00 til kl. 16:00.

Á meðan þessar lokanir vara er notast við hjáleið um Bjarkarholt - Háholt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×