Innlent

Fötluð kona þurfti að fara af leiksýningu - engin þjónusta eftir ellefu

Boði Logason skrifar
Fatlaðir geta ekki farið í leikhús á sýningu sem er búin síðar en 22:45 á kvöldin á virkum dögum.
Fatlaðir geta ekki farið í leikhús á sýningu sem er búin síðar en 22:45 á kvöldin á virkum dögum. mynd tengist frétt ekki beint
„Við vorum alveg miður okkar yfir þessu, ekki okkar vegna, heldur vegna þess að fólk geti ekki farið í bíó eða leikhús ef sýning stendur lengur en til klukkan ellefu," segir Bergur Þór Ingólfsson, leikari í Borgarleikhúsinu. Í gærkvöldi þurfti kona í hjólastól að yfirgefa sýningu í leikhúsinu áður en henni lauk. Útskýring sem hún gaf var sú að félagsþjónustan býður ekki upp á að sækja fólk eftir klukkan korter í ellefu á kvöldin.

Bergur Þór vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi en sýningin sem um ræðir heitir Eldhaf og er sýnd í Borgarleikhúsinu. Sýningunni lýkur klukkan rúmlega ellefu og var konan í hjólastólnum sótt klukkan korter í ellefu.

„Ég var að leika í sýningunni og við tókum eftir því að konan í hjólastólnum yfirgaf sýninguna. Ein leikkonan fór að athuga hvort það væri ekki í lagi með hana, því um daginn var maður sem fékk aðsvif í miðri sýningu. Hún fékk þær útskýringar frá konunni að hún yrði að fara því annars kæmist hún ekki heim," segir Bergur í samtali við Vísi í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg geta fatlaðir fengið far hjá ferðaþjónustunni í síðasta lagi klukkan 22:45 á virkum dögum. Á laugardögum er þjónusta frá klukkan 9 til 22:45 og á sunnudögum frá klukkan 12 til 22:45.

Bergur Þór segir það hljóta að vera sjálfsögð mannréttindi að fá að fara í leikhús á sýningar sem standa lengur en til klukkan ellefu. „Manni finnst eins og við ættum að vera sammála um þetta þó við séum að rífast um margt, að fólk skuli ekki hafa aðgengi að þessu. Þetta hljóta að vera sjálfsögð réttindi sem við ættum öll að vera sammála um í okkar samfélagi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×