Innlent

Ekki útilokað að Guðrún Páls verði áfram bæjarstjóri

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Guðrún Pálsdóttir. Hún er enn bæjarstjóri, þar sem aldrei var formlega gengið frá uppsögn hennar í tíð eldri meirihluta. Ekki er útilokað að hún verði áfram bæjarstjóri í skjóli nýs meirihluta.
Guðrún Pálsdóttir. Hún er enn bæjarstjóri, þar sem aldrei var formlega gengið frá uppsögn hennar í tíð eldri meirihluta. Ekki er útilokað að hún verði áfram bæjarstjóri í skjóli nýs meirihluta.
Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Listi Kópavogsbúa hafa hafið viðræður um myndun meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs. Ekki er útilokað að Guðrún Pálsdóttir verði áfram bæjarstjóri í skjóli nýs meirihluta. Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri, gæti komist í lykilstöðu í eins manns meirihluta í bænum.

Viðræður milli Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um myndun meirihluta í bæjarstjórn slitnuðu í gær. Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn og formaður bæjarráðs, og Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vinstri grænna, hafa ekki viljað fara í viðræður um myndun meirihluta án hvors annars.

Ármann Kr. Ólafsson fundaði með Guðríði fyrir nokkrum dögum þar sem rætt var um myndun meirihluta með Samfylkingunni og Vinstri grænum.

Gunnar var á móti og fékk Aðalstein með sér

Upp úr þessum viðræðum slitnaði í gær en hefðu flokkarnir þrír farið í samstarf hefðu þeir haft meirihluta með átta bæjarfulltrúum. Sjálfstæðismenn gengu ekki samhentir til þessara viðræðna því Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri, mun samkvæmt heimildum fréttastofu hafa lagst gegn þessum áformum. Mun hann hafa fengið Aðalstein Jónsson, annan bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins með sér, og þannig hafi Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna, ekki haft neinn annan kost en að slíta viðræðunum. Ármann mun í raun hafa staðið frammi fyrir því að mynda meirihluta og sundra eigin flokki í Kópavogsbæ eða slíta viðræðunum.

Eftir þetta hófu sjálfstæðismenn óformlegar viðræður við Rannveigu Ásgeirsdóttur, fulltrúa Lista Kópavogsbúa, og Ómar Stefánsson, frá Framsóknarflokki. Tæknilega geta þessir þrir flokkar myndað meirihluta og unnið var að því síðdegis að leggja grunn að samkomulagi. Í slíku samstarfi styrkist staða Gunnars I. Birgissonar þar sem um eins manns meirihluta verður að ræða.

Einn óvissuþáttur í slíku samstarfi er óeining meðal sjálfstæðismanna, en Gunnar hefur ekki verið samstíga öðrum bæjarfulltrúum flokksins í ákveðnum málum og einnig er talið að ekki séu fullgróin sár meðal sjálfstæðismanna frá síðasta prófkjöri þegar Ármann skákaði Gunnari um oddvitasæti flokksins. Heimildarmenn fréttastofu fullyrða þó að sjálfstæðismenn gangi samhentir til meirihlutaviðræðna og góð sátt ríki meðal kjörinna fulltrúa flokksins í Kópavogsbæ.

Framtíð Guðrúnar Pálsdóttur bæjarstjóra er í lausu lofti en ekki hefur formlega verið gengið frá starfslokum hennar þó meirihluti bæjarstjórnar hafi viljað segja henni upp í tíð eldri meirihlutasamstarfs. Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki útilokað að hún verði áfram bæjarstjóri í skjóli nýs meirihluta. Það sem styður áframhaldandi veru hennar er m.a stuðningur Gunnars I. Birgissonar, en hann mun hafa lýst megnri óánægju með hvernig staðið var að uppsögn hennar. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×