Innlent

Sprengjuógn við Hverfisgötu - atburðarásin frá upphafi

Svo virðist sem sprengja hafi sprungið í portinu að Hverfisgötu 4, sem er fyrir aftan Stjórnaráð Íslands, um klukkan hálf átta í morgun. Óstaðfestar fregnir herma að það hafi verið starfsmaður ráðuneytisins sem heyrði sprenginguna og að vegfarandi hafi tilkynnt um hana.

Í kjölfarið var lögregla og sérsveit ríkislögreglustjóra ásamt sprengjusveit Landhelgisgæslunnar kölluð til. Fannst þá torkennilegur hlutur í kassa í portinu. Utan á húsunum var búið að hengja upp plaköt eða spjöld með pólitískum skilaboðum, en ekki er ljóst hvað stóð á þeim. Þess má geta að skrifstofa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er til húsa þar sem sprengjan sprakk.

Klukkan níu í morgun mætti ríkisstjórnin á fund. Ríkislögreglustjóri útskýrði þá ástandið fyrir ríkisstjórninni og þótti ekki ástæða til þess að rýma stjórnaráðshúsið.

Á milli níu og tíu í morgun var svo sprengjuleitarvélmenni sent á vettvang til þess að rannsaka torkennilega hlutinn. Þá var lögreglan búin að loka Hverfisgötunni frá lækjargötu upp að Ingólfsstræti. Þá fóru einnig lögreglumenn í innanríkisráðuneytið og skimuðu ráðuneytið, en þar var einnig búið að hengja upp samskonar plaköt og finna mátti í kringum leifar sprengjunnar.

Vísir ræddi við upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins í morgun, en hann sagði enga ógn steðja að ráðuneytinu og að starfsfólk þess væri hið rólegasta vegna málsins.

Skrifstofur ríkissaksóknara voru einnig rýmdar, en þau eru til húsa að Hverfisgötu 6.

Það var svo hálfellefu sem sprengihleðslu var skotið í hlutinn. Í ljós kom að ekkert sprengiefni var að finna í honum. Sprengjuleitarmaður í hlífðarbúningi skoðaði svo leifar sprengjunnar eins og sést á innfelldu myndinni.

Ekki er vitað hverjir voru að verki en það er ljóst að verknaðurinn hefur pólitískan blæ yfir sér.

Ekki hefur náðst í Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, en hann var á vettvangi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×