Innlent

Leoncie segist hafa verið áreitt á Leifsstöð

Heimkoman fékk heldur snubbóttan endi ef marka má frásögn Leoncie.
Heimkoman fékk heldur snubbóttan endi ef marka má frásögn Leoncie.
Endurkoma söngdívunar Leoncie hingað á klakann virðist hafa fengið snubbóttan endi ef marka má frásögn hennar sem hún sendi Víkurfréttum í tölvupósti. Hún fullyrðir að starfsmaður öryggisgæslunnar á Leifsstöð hafi áreitt sig þegar hún var á leið af landi brott.

Leoncie, sem búsett var hér árum saman en flutti til Bretlands fyrir nokkrum árum, hélt vel heppnaða tónleika á Gauki á Stöng um helgina. Tónleikarnir vöktu mikla athygli og voru svo vel sóttir að blásið var til auka tónleika.

Í bréfinu sem hún sendir Víkurfréttum er hún ómyrk í máli og segir að kvenkyns öryggisvörður, sem hún segir að sé frá Sandgerði, hafi gengið mjög hart fram í öryggisskoðuninni áður en henni var hleypt inn í brottfararsal Leifsstöðvar.

„Þetta var eitthvað allt annað en öryggisskoðun, hún var að reyna að niðurlægja mig," er haft eftir Leoncie á vef Víkurfrétta. Söngkonan tekur einnig fram að konan hafi „yfirheyrt" sig vegna ilmvatns sem hún var með og ætlaði að færa eiginkonu Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Það mun hinsvegar vera einkamál að sögn söngkonunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×