Sleðaflokkar björgunarsveita frá Húsavík, Aðaldal og Kópaskeri eru nú að kanna rafmagnslínuna sem liggur frá Laxárvirkjun til Kópaskers en taldar eru líkur á að hún sé slitin samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg.
Rafmagnslaust er á Kópaskeri, Þórshöfn, í Kelduhverfi og Öxarfirði Raufarhöfn er á sömu línu en þar er vararafstöð.
Einnig var Björgunarsveitin á Dalvík kölluð út í kvöld en hún sótti fólk sem sat fast í bifreið sem lenti milli snjóflóða við Ólafsfjarðarmúla, Húnar á Hvammstanga fóru til aðstoðar þegar bíll fór útaf þjóðvegi 1 við Sveðjustaði, og Ósk í Búðardal dró upp bíl sem sat fastur við Fellstrandarveg.
Á Suðurnesjum er nokkur ófærð, þar hafa björgunarsveitirnar Suðurnes í Reykjanesbæ og Sigurvon í Sandgerði unnið innanbæjar við að losa fasta bíla.
Sleðaflokkar frá Húsavík kallaðir út vegna rafmagnsleysis
