Innlent

Nýársnótt hjá lögreglu

Líkamsárás, lausaganga hrossa og ölvunarakstur var á meðal þess sem kom inn á borð lögreglu þessa fyrstu nótt ársins.

Maður um tvítugt var fluttur á sjúkrahús eftir líkamsárás sem átti sér stað á Gíslagötu við Ráðhúsið á Akureyri um fimmleytið í nótt. Karlmaður veitti unga manninum kjaftshögg með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði og þarf að gangast undir aðgerð. Árásarmaðurinn er ekki í haldi lögreglu þar sem hann var farinn af vettvangi þegar hana bar að. Hann er þó þekktur og verður yfirheyrður þegar til hans næst.

Lögreglan á Suðurnesjum fékk í nótt tilkynningu um laus hross á Reykjanesbrautinni en þrátt fyrir talsverða leit fundust þau ekki fyrr en í morgun við Hvassahraun. Erfiðlega gekk að finna eigandann en eftir nokkur símtöl fannst hann þó á endanum og sótti skepnurnar sem voru átta talsins. Talið er að sprengingar næturinnar hafi fælt hrossin en líkt og margir vita hræðast dýr glampana og ekki síst drunurnar frá þeim.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í morgun tillkynningu um tvo menn sem höfðu úðað á fólk, að öllum líkindum með piparúða. Mennirnir úðuðu á karlmann og konu á Lækjartorgi eftir einhver orðaskipti og voru þau flutt á slysadeild.

Tilkynnt var um húsbrot og skemmdarverk í Kvennaskólanum klukkan hálf sjö í morgun. Nokkru seinna voru tveir menn handteknir við Landsspítalnn grunaðir um verknaðinn. Annar mannanna var skorinn á hendi og var honum komið undir læknishendur á slysadeild. Hinn var vistaður í fangageymslu en sá slasaði mun að lokinni aðhlynningu fara sömu leið.

Þá voru tveir ökumenn teknir grunaður um ölvun við akstur á Selfossi í nótt en að öðru leyti var nóttin tíðindalaus hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×