Innlent

Árið fer skart af stað hjá lögreglu

Mynd/Pjetur
Nýja árið heilsar lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með önnum.

Upp úr hádegi var karlmaður handtekinn í Kópavogi en hans hefur verið leitað. Hann er eftirlýstur vegna vangoldinna sekta. Mun hann þurfa að dvelja í fangelsi eitthvað frameftir á nýju ári.

Um hálf tvö var tilkynnt um skemmdarverk í Hólabrekkuskóla. Þar hafði rúða verið brotin með einhverskonar sprengju. Ekki er vitað um gerendur.

Svo tæpum klukkutíma síðar var tilkynnt um að vegfarendur um Kjósarskarðsveg væru í vandræðum vegna færðar. Björgunarsveit fór á staðinn og aðstoðaði fólk. Sögðu veginn ófærann.

Klukkan þrjú var umferðaróhapp á Seljabraut við Jaðarsel. Þar hafði bifreið verið ekið útaf veginum. Tveir voru sagðir af sjónarvottum hafa verið í bifreiðinni og væru á hlaupum á Seljabrautinni. Lögreglumenn handtóku tvo pilta sem grunaðir eru um akstur á bifreiðinni. Þeir voru færðir á lögreglustlöð þar sem þeir fengu viðeigandi meðferð.

Og stuttu síðar var tilkynnt um mann á gangi á Mýrargötu og hafi sá reynt að stöðva bifreiðar og fá far. Þegar fólk vildi ekki stöðva átti hann það til að sparka í áttina að bifreiðunum. Tilkynnandi kvaðst hafa fengið spark í sína bifreið en skemmdir samt ekki sjáanlegar. Leitað var að viðkomandi en hann fannst ekki.

Loks var tilkynnt um 10 hross á gamla þjóðvegi 1 við Tíðarskarð í Kjós þegar klukkan var að ganga fimm. Hringt var í bónda í sveitinni og kom í ljós að bróðir hans var að leita að hrossunum. Gerði hann viðeigandi ráðstafanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×