Innlent

Framkvæmdastjóri LÍÚ: Verið að taka hjartað úr sjávarútvegsráðuneytinu

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Framkvæmdastjóra LÍÚ líst illa á fyrirhugaðar breytingar á ráðuneytum. Hann segir það vera eins og taka hjartað úr sjávarútvegsráðuneytinu að flytja Hafrannsóknastofnun frá því.

Tilkynnt var um breytingar á ráðuneytinum í lok síðustu viku og hefur Steingrímur J. Sigfússon nú tekið við lyklavöldum í bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og mun hann starfa framvegis sem atvinnuvegaráðherra.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍU óttast að breytingarnar muni koma til með að veikja atvinnulífið en rætt var við hann í morgunþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Nú erum við sem betur fer í fullri vinnu öll sem ræðum hér saman, og ef við myndum bæta við okkur svona fjórum fullum störfum til viðbótar, þá getum við velt fyrir okkur hvort það muni efla það sem við erum að gera eða veikja það," sagði Friðrik.

Þá segir hann að verið sé að taka hjartað úr sjávarútvegsráðuneytinu með að flytja Hafrannsóknarstofnun undir Umhverfisráðuneytið eins og breytingin var kynnt í stjórnarsáttmálanum.

„Þar með er þetta ráðuneyti orðið nánast ekki neitt og hvernig á ráðherra að taka ákvörðun um þessi mál þegar hann hefur ekki þekkinguna? Mér skilst að hann eigi þá að spyrja umhverfisráðherrann og hann spyr svo Hafrannsóknastofnunina. Þetta dettur engum í hug að gera í nágrannalöndum okkar og ég vona að það verði snúið frá þessu, þetta má einfaldlega ekki gerast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×