Innlent

Gamla lögreglustöðin í Reykjanesbæ full af heitu vatni

Frá vatnslekanum. Hægt er að skoða fleiri myndir á vef Víkurfrétta.
Frá vatnslekanum. Hægt er að skoða fleiri myndir á vef Víkurfrétta. Mynd / Hilmar Bragi Bárðarson VF.is
„Það er búið að seytla þarna inn í um viku," segir Sigtryggur Magnason, einn af eigendum eignarhaldsfélagsins sem á gömlu lögreglustöðina í Reykjanesbæ. Þar uppgötvaðist í dag að heitavatnslögn hafði sprungið og flæddi sjóðandi heitt vatn um allt húsið. Talið er að lögnin hafi sprungið fyrir fjórum til sjö dögum síðan.

Á vef Víkurfrétta kemur fram að slökkvilið Brunavarna Suðurnesja hafi verið kallað út í hádeginu en þá fossaði sjóðandi heitt vatn út úr húsinu.

Þegar inn var komið mátti glögglega sjá eyðilegginguna, allir innviðir hússins eru soðnir eftir að hafa verið í gufubaði í marga daga.

„Húsið er talið ónýtt," segir Sigtryggur en til stóð að breyta húsinu í gistiheimili. Sigtryggur segir skaðann að minnsta kosti 50 milljónir króna.

Sigtryggur fékk þau svör hjá slökkviliðinu í dag að það myndi líklega taka daginn að dæla vatninu út úr húsinu, „og líklega eitthvað lengur en það," bætir Sigtryggur við.

Spurður hvort húsið hafi verið tryggt, svarar Sigtryggur: „Þetta var hundrað prósent ótryggt." Hann bætir svo við að þetta sé ekki beinlínis góð byrjun á árinu.

Hægt er að sjá fleiri myndir á vef Víkufrétta með því að smella á hlekkinn hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×