Innlent

2400 lítrar af heitu vatni á sekúndu

Notkunin á heitu vatni frá Orkuveitu Reykjavíkur á síðasta ári nam 74,7 milljónum tonna sem svarar til 2.400 lítra á sekúndu árið um kring. Þetta er um milljón tonnum meira en árið 2010 og skýrist það að mestu eða öllu leyti af því að hitastigið var lægra, segir á vef OR. Jafngildishiti ársins 2010 var 0,5 gráðum hærri en á síðasta ári.

Í árslok 2010 var tekin í notkun ný hitaveita frá Hellisheiðarvirkjun. Hefur hún aukið á öryggi hitaveitukerfisins og strax á þessu fyrsta ári hennar í rekstri var einn tíundi af vatnsmagninu sem framleitt var sóttur á Hellisheiðina.

„Heitavatnsnotkunin á höfuðborgarsvæðinu í desember 2011 var um einni milljón tonna meiri en í desember 2010 enda jafngildishitinn um 2 gráðum lægri. Í nóvember 2011 var notkunin hinsvegar 1,3 milljón tonna minni en í sama mánuði 2011, þannig að segja má að kuldinn í desember hafi ekki náð að vega upp hitann í nóvember," segir á vef Orkuveitu Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×