Innlent

Loftsteinadrífa skellur á norðurhveli jarðar á morgun

Frá Kvaðrantítar loftsteinadrífunni á síðasta ári.
Frá Kvaðrantítar loftsteinadrífunni á síðasta ári. mynd/NASA
Íbúum á norðurhveli Jarðar er bent á að horfa til himins milli 7 og 8 fyrir hádegi á morgun en von er á árlegri loftsteinahríð. Drífan nefnist Kvaðrantítar og er með tilkomumeiri loftsteinadrífum sem eiga sér stað á hverju ári.

Sævar Helgi Bragason hjá Stjörnufræðivefnum bendir fólki að horfa í átt að Karlsvagninum í norðurhimni en loftsteinahríðin mun eiga upptök sín þar. Hann segir að hríðin verði skammvinn og að einn til tveir loftsteinar verði sýnilegir á mínútu.

Hann tekur þó fram að veðrið muni skipta sköpum um hvort að loftsteinahríðin verði sýnileg á Íslandi.

Samkvæmt veðurspám verður skýjað víðast á hvar landinu en þó er alltaf möguleiki á að það rofi til.

Hríðin myndast þegar Jörðin ferðast í gegnum slóð halastjörnunnar 2003 EH1. Leifar halastjörnunnar brenna síðan upp í lofthjúpi Jarðar svo að úr verður loftsteinahríð.

Hægt er að lesa um loftsteinahríðina á upplýsingavef NASA. Einnig er hægt að lesa um fyrirbærið á Stjörnufræðivefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×