Innlent

Landsbankinn biður bæjarstjóra Akureyrar velvirðingar

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans.
Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans.
„Þetta var yfirsjón af okkar hálfu og við höfum beðist velvirðingar á því," segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, en bæjarstjóri Akureyrar, Eiríkur Björn Björgvinsson, var afar ósáttur við að hafa birst í sérstakri áramótaauglýsingu sem birtist í fjölmiðlum um hátíðirnar.

Hann birtist stuttlega í auglýsingunn þar sem hann var að stýra fundi á vegum Landsbankans í Hofi á Akureyri á síðasta ári. Það kom því Eiríki á óvart þegar hann sá sig sjálfan í auglýsingunni, enda hafði hann aldrei gefið samþykki sitt fyrir birtingunni.

Kristján segir bankann hafa fengið kurteisa ábendingu frá bæjarstjóranum og hann hafi umsvifalaust verið beðinn afsökunar. Þá er búið að fjarlægja auglýsinguna af vef Landsbankans. Auglýsingin sjálf hafði „stuttan líftíma" eins og Kristján orðar það. Enda auglýsingin eingöngu ætluð til sýninga í kringum áramótin. Því mun hún ekki birtast í fjölmiðlum aftur óbreytt.

Kristján segir málinu lokið af hálfu bankans.


Tengdar fréttir

Auglýsing Landsbankans hugsanlega brotleg við siðareglur

Bæjarstjóri Akureyrar, Eiríkur Björn Björgvinsson, segir það forkastanlegt að hann skuli koma fyrir í sjónvarpsauglýsingu Landsbankans. Hann segir í viðtali við blaðið Akureyri Vikublað að hann hafi komið fyrir í auglýsingu bankans, sem var sýnd yfir allar hátíðarnar, en myndskeiðið var tekið upp þegar hann var fundarstjóri á kynningarfundi á vegum bankans fyrir nokkru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×