Innlent

Barnakeðja og neon-ljós við tjörnina

Barnaheill á Íslandi ætla í dag að freista þess að mynda keðju í kringum Reykjavíkurtjörn með aðstoð 1000 barna til að vekja athygli á réttindum barna hér á landi en að sögn samtakanna hefur sjaldan verið brýnna en nú að standa vörð um málefni þeirra.

Börn og foreldrar þeirra eru hvött til að taka þátt í þessu framtaki en boðið verður upp á heitt kakó og svo verður kveikt á neonljósum. Keðjan verður mynduð klukkan fjögur.

Atburðurinn í dag er upphafspunktur samstarfsins Heillakeðja barnanna árið 2012, sem er samstarf Barnaheilla og tólf íslenskra fyrirtækja. Markmið samstarfsins er að safna fé í þágu barna. Fjármagninu verður varið jafnt til innlendra og erlendra verkefna.

Samtökin leituðu til tólf íslenskra fyrirtækja og óskuðu eftir því að þau tækju að sér einn mánuð á árinu með aðstoð viðskiptavina sinna. Þann mánuð leggja þau áherslu á réttindi barna og safna fé til styrktar starfsemi Barnaheilla. Hægt verður að fylgjast með hvaða leiðir hvert fyrirtæki fer á facebook síðu samstarfsins.

Blómaval er það fyrirtæki sem ríður á vaðið og gerir janúar að mánuði barnanna. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá undir yfirsögninni „Fjölskyldan, börnin og heilsan".

Einstaklingar geta einnig lagt sín lóð á vogarskálarnar og stofnað sínar eigin heillakeðjur inná vefnum heillakedjan.is. Þannig geta þeir haft samband við sína nánustu og safnað fé til ákveðinna verkefna hjá Barnaheillum.

Loks er öllum heimilt að styðja starf samtakanna með frjálsum framlögum eða mánaðarlega sem heillavinir. Þá er bent á vef samtakanna, barnaheill.is eða bankareikninginn 0327-26-2535 kt. 521089-1059.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×