Innlent

Bankarnir þurfi að afskrifa tugi milljarða vegna kvótafrumvarps

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðissflokksins, óttast að bankarnir þurfi að afskrifa tugi milljarða vegna kvótafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Hann segir að tapið kunni á endanum að lenda á skattgreiðendum.

Guðlaugur hefur óskað eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ræði áhrif kvótafrumvarpsins á bankana og ríkissjóð. Guðlaugur vísar til þess að í samningum kröfuhafa og ríkisstjórnarinnar við stofnun nýju bankanna beri ríkissjóður ábyrgð á þeim stjórnvaldsaðgerðum sem skaða efnahag bankanna.

Guðlaugur telur víst að þær breytingar sem frumvarpið boðar muni leiða til fjöldagjaldþrota innan greinarinnar. Tapið munið að mestu lenda á Landsbankanum.

„Það er ljóst að kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar mun setja stóran hluta útgerðarinnar á höfuðið. Það þýðir það að bankarnir verða fyrir skelli og þá sérstaklega ríkisbankinn, sem er með 60% af sjávarútvegsfyrirtækjunum í viðskiptum. Samningar sem ríkisstjórnin gerði við kröfuhafana á sínum tíma, þeir innifela í sér ef einhverjar stjórnvaldsaðgerðir hafa alvarlega áhrif á efnahag bankanna, að þá er það ríkið, þ.e. skattgreiðendur sem bera ábyrgð á því," sagði Guðlaugur.

Hann telur að tapið muni hlaupa á milljörðum.

„Það sem er fullkomlega ábyrgðarlaust af hálfu ríkisstjórnarinnar, er að það er ekki búið að kanna þetta. Þegar fyrri frumvörp komu fram þá fengum við upplýsingar um að Landsbankinn myndi ekki þola þá fyrningarleið sem menn voru að leggja upp þá og maður myndi ætla eftir allan þennan tíma, að ríkisstjórnin væri búin að taka þennan þátt úr en það kom fram í umræðum í gær að svo er ekki."

Fyrstu umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu lauk á Alþingi klukkan hálf fjögur í nótt. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, gagnrýndi frumvarpið í umræðu um málið í gær og sagði að markaðssjónarmið skipuðu þar of mikinn sess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×