Innlent

Þyrlan fer í fyrramálið að sækja rússneska sjúklinginn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hannes Petersen þyrlulæknir að störfum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.
Hannes Petersen þyrlulæknir að störfum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun fara í loftið klukkan fimm í fyrramálið til þess að sækja sjómann á rússneskum togara sem veiktist þegar skipið var um 260 sjómílum frá Reykjavík. Aðstoðarbeiðni barst um klukkan hálfþrjú í dag vegna mannsins.

Reynt var að halda símafund með lækni þyrlunnar en vegna tungumálaörðugleika gekk það illa. Var því Vera Kalashnikova rússneskumælandi túlkur fengin til aðstoðar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Fékk hún ásamt Hannesi Petersen þyrlulækni þær upplýsingar frá lækni um borð í togaranum, að um væri að ræða veikan skipverja sem ekki væri lífshættulega veikur en samt sem áður yrði hann að komast á sjúkrahús. Komist var að þeirri niðurstöðu að þyrla Landhelgisgæslunnar myndi sækja manninn.

Togarinn siglir nú á auknum hraða til lands en þegar þyrlan fer af stað í fyrramálið mun skipið verða staðsett um 100 sjómílur frá landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×