Innlent

"Þjóðhátíðin er að breytast"

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Frá Þjóðhátíð 2011.
Frá Þjóðhátíð 2011. Mynd/Óskar Friðriksson
Skipuleggjendur Þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum þurfa nú að horfast í augu við breytta tíma. Á síðustu árum hefur hátíðin vaxið ört og þessar breyttu aðstæður kalla á nýjar áherslur.

„Þjóðhátíðin er að breytast," segir Páll Scheving Ingvarsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar. „Ákveðin útvíkkun hefur átt sér stað og nú er boðið upp á fjölbreyttari tónlistarflóru en áður hefur verið gert."

Páll segir að sá mikli fjöldi fólks sem nú sæki Vestmannaeyjar heim þegar Verslunarmannahelgi gengur í garð kalli á meiri breidd. Því hafi Þjóðhátíðarnefndin ákveðið að horfa til Hróarskelduhátíðarinnar.

„Við heimsóttum Hróarskelduhátíðina í fyrra og við höfum fylgst með henni. Við fórum þangað til að víkka sjóndeildarhringinn og þar fengum við að kynnast þeirra starfsemi."

Töluverð breyting hefur orðið á þeim tónlistarmönnum sem koma fram á hátíðinni. Til dæmis mun írski tónlistarmaðurinn Ronan Keating koma áfram ásamt hollensku rapphljómsveitinni Dope DOD. Páll segir að þetta sé gert til að höfða til stærri hóps hátíðargesta. „Nú er rými fyrir þyngri tónlist og rapp," segir Páll.

„Við höfum heyrt talað um Litlu Hróarskeldu í gagnrýnistóni en mér finnst það ekki endilega vera neikvætt. Það hlýtur að vera jákvætt að við bjóðum upp á breidd í dagskránni. Við viljum bara að fólk finni eitthvað fyrir sitt hæfi."

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um Þjóðhátíðina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×