Innlent

Seyðfirðingar halda sig til hlés á meðan Stiller tekur upp

LVP skrifar
Ben Stiller mun taka upp á Seyðisfirði á næstu dögum.
Ben Stiller mun taka upp á Seyðisfirði á næstu dögum.
Bæjarbúar á Seyðisfirði koma til með að leika hlutverk í kvikmynd Ben Stiller þegar tökur hefjast í bænum á morgun. Ef allt gengur upp mun þó enginn verða þeirra var þegar myndin verður sýnd.

Tökur hafa undanfarið staðið yfir hér á landi á kvikmynd bandaríska leikarans Ben Stiller The Secret Life of Walter Mitty. Næstu tvo daga fara tökur fyrir myndina fram á Seyðisfirði. Íbúum var sent bréf vegna þessa. Þar er þeim tjáð að í upptökunum þurfi að líta út eins og bærinn sé mannlaus og eru þeir beðnir um aðstoð við það. Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði, segir þetta þó ekki þýða að bæjarbúar þurfi að halda sig inni allan daginn.

„Það er svona verið að fara fram á samvinnu við bæjarbúa um að reyna að láta, allt svo þar sem er verið að taka þessi myndskeið hjá þeim að þau séu mannlaus. Þetta stendur yfir í einhverjar mínútur í hvert skipti," segir Vilhjálmur.

Hann segir undirbúning hafinn fyrir morgundaginn. Til að mynda séu bæjarstarfsmenn að taka niður umferðarskilti sem ekki mega sjást í myndinni. Bærinn hefur ekki beinar tekjur af komu kvikmyndatökuliðsins.

„Ég held að það sé svona ágætis bara kynning af þessu og það geta verið skemmtilegar myndir í þessu. Svo náttúrulega þessir þjónustuaðilar sem eru að vinna með þessu fólki það auðvitað koma svona óbeinar tekjur af því, bæði hvað varðar ferðaþjónustuaðila og svona aðrar aðila sem eru að þjónusta og aðstoða þá og ég held að þetta sé jákvætt fyrir þá," segir Vilhjálmur.

Hann segir bæjarbúa sýna verkefninu áhuga en mörgum finnist spennandi að fá Ben Stiller í bæinn. „Það eru margir nokkuð spenntir fyrir því. Ekki síst hjá svona yngra fólki sko," sagði Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri á Seyðisfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×