Innlent

Rúmlega helmingur 18 ára nema með of hátt hlutfall líkamsfitu

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
Rúmlega helmingur átján ára nema greindust með of hátt hlutfall líkamsfitu samkvæmt niðurstöðum um holdafar, úthald, hreyfingu og efnaskiptasnið meðal 18 ára íslenskra framhaldsskólanema en niðurstöðurnar voru birtar í nýjasta hefti Læknablaðsins. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhættuþætti efnaskiptasjúkdóma meðal 18 ára einstaklinga.

Og niðurstöðurnar eru nokkuð sláandi. Þátttakendur voru 18 ára (eða á 18. ári) framhaldsskólanemendur úr þremur skólum í Reykjavík, skóla eitt (bóknámsskóla með áfangakerfi), skóla tvö (bóknámsskóla með bekkjakerfi) og skóla þrjú (verknámsskóla).

Úrtakið var valið af handahófi af nemendalistum skólanna og alls var 426 nemendum boðin þátttaka en 295 (69,3%) þáðu boðið (143 stúlkur og 152 strákar). Af þeim hættu 18 þátttöku.

Í holdafars- og blóðþrýstingsmælingunum tóku 275 nemendur þátt, 252 undirgengust mælingu á líkamssamsetningu, 251 leyfði blóðsýnatöku, 243 tóku þátt í úthaldsprófinu og hreyfing var mæld hjá 212 þátttakendum.

Nðurstöðurnar voru að samkvæmt BMI-stuðli voru 23% nemenda of þungir eða feitir, 20% höfðu of mikið mittismál og 51% greindust með of hátt hlutfall líkamsfitu. Einnig mældust 11% nemenda með óæskilega lág háþéttni-fituprótein.

Hvað úthald varðar, flokkuðust aðeins 16% nemenda með slakt eða mjög slakt úthald og þar af voru stúlkur í miklum meirihluta. Þrátt fyrir að stúlkurnar hefðu að meðaltali gott úthald og strákarnir mjög gott úthald náðu nemendur að jafnaði ekki að hreyfa sig daglega eins og mælt er með í hreyfiráðleggingum.

Úthald 18 ára framhaldsskólanema virðist því að jafnaði gott en hreyfingu þeirra er verulega ábótavant og hlutfall líkamsfitu of hátt. Einnig fannst hækkaður slagþrýstingur og blóðfitur hjá um 10% unglinganna. Athygli vekur að líkamsástand er verra hjá verknáms- en bóknámsnemum.

Hægt er að lesa rannsóknina á vef Læknablaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×