Innlent

Árni Páll hættir eftir 485 daga í embætti og Jón 965 daga

Hafsteinn Hauksson skrifar
Ráðherrarnir tveir sem yfirgefa ríkisstjórnina í dag hafa sinnt embættum sínum í tæplega 1500 daga samtals.

Árni Páll Árnason hefur átt vinsældum að fagna meðal hægrisinnaðra Samfylkingarmanna, enda hefur hann lagt áherslu á mál á borð við erlendar fjárfestingar og hefur lýst áhuga á að skoða aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun Landsvirkjunar.

Hann hefur farið með málatilbúnaðinn í Icesave fyrir EFTA dómstólnum eftir að málið var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr í ár.

Í ráðherratíð hans hefur Seðlabankinn unnið að nýrri peningastefnu eftir gjaldeyrishöft, en sjálfur lagði Árni fram frumvarp um að framlengja höftin.

Þá hefur hann sinnt bankamálum af kappi, tók ákvörðun um að leggja niður skilanefndir um áramótin auk þess sem skýrsla unnin að hans undirlagi verður birt í janúar um óbeinan aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi.

Árni Páll hættir eftir 485 daga í embætti.

Jón Bjarnason hefur verið umdeildur í ráðherratíð sinni, en þó átt vinsældum að fagna í kjördæmi sínu og átt dyggan hóp stuðningsmanna innan Vinstri grænna.

Auk þess að gæta hagsmuna Íslands í makríldeilunni og lenda upp á kant við kaupmenn vegna innflutningshafta í landbúnaði hefur hann haldið utan um eitt veigamesta mál ríkisstjórnarinnar, breytingarnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, án þess að tekist hafi að bylta kerfinu líkt og lagt var upp með.

Hann var gagnrýndur harkalega af samráðherrum sínum þegar hann birti drög að nýju kvótafrumvarpi fyrir rúmum mánuði án þess að ræða við samstarfsfólk sitt.

Jón Bjarnason hættir eftir 965 daga í embætti




Fleiri fréttir

Sjá meira


×