Innlent

Fjölmiðlar sem refsivöndur dómsvaldsins ekki gott samspil

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.
„Í fræðunum er til nokkuð sem heitir ólögmæltar refsilækkanir og hækkanir, og þetta gæti klárlega fallið undir það," segir Brynjar Níelsson, formaður lögmannafélags Íslands, um kröfu verjanda Baldurs Guðlaugssonar, sem heldur því fram í greingerð sinni til Hæstaréttar, að fjölmiðlaumfjöllun um mál Baldurs hafi verið svo óvægin að hún ætti að vera metin til refsilækkunar.

Baldur var eins og kunnugt er dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik og var þeim dómi áfrýjað til Hæstaréttar eftir að hann féll í apríl á þessu ári.

Fréttablaðið greinir svo frá því í dag að meðal þess sem Baldur byggir vörn sína á fyrir Hæstarétti sé fjölmiðlaumræðan sem hann hefur þolað og segir orðrétt í greinagerð verjanda hans að Baldur hafi „nú þegar orðið fyrir dæmalausum áföllum og ágangi á mannorð sitt og allt persónulegt starf og líf, en þar hefur fjölmiðlaumfjöllun spilað stórt hlutverk. Á ákærða hefur þannig, og frá því að málið fyrst komst í hámæli haustið 2008, verið gefið út hreint veiðileyfi af hálfu fjölmiðla, sem farið hafa hamförum í umfjöllun um hann, persónu hans og störf og ekki síst fyrirfram sakfellingu á meintu broti hans".

Síðast þegar farið var fram á að umfjöllun fjölmiðla yrði metin til refsilækkunar var í dómsmáli gegn þingmanninum Árna Johnsen þegar hann var dæmdur fyrir þjófnað.

Brynjar segir að ef það sé eitthvað íþyngjandi í kringum dómsmálið sjálft, þá sé heimilt að taka tillit til þess við uppkvaðningu refsingar.

„Og það getur verið eitthvað annað en fjölmiðlaumfjöllun líka," segir Brynjar sem bætir við að rökstuðningur dómara í Hæstarétti á Íslandi sé oft óljós, því sé erfiðara að átta sig á ástæðunum fyrir refsilækkunum, séu þær fyrir hendi.

Spurður hvort það myndi ekki setja fjölmiðla í sérkennilega stöðu ef þeir væru skyndilega orðnir hluti af refsingu dómskerfisins svarar Brynjar: „Það er náttúrulega ekki gott samspil. Það þarf að beita slíkum úrræðum mjög varlega."


Tengdar fréttir

Engin refsing jafníþyngjandi og ágangur fjölmiðla

Fjölmiðlaumfjöllun um mál Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, hefur verið svo óvægin að engin refsing getur staðist samanburð við hana. Svo segir í greinargerð lögmanns hans, Karls Axelssonar, til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×