Innlent

Tækjabúnaði stolið af Blátt áfram

Sigríður segir að þjófunum hafi ekki getað dulist hvers konar starfsemi þeir voru að stela af.
Fréttablaðið/anton
Sigríður segir að þjófunum hafi ekki getað dulist hvers konar starfsemi þeir voru að stela af. Fréttablaðið/anton
„Það sem mér finnst óhugnanlegast er að lögreglan segir að þeir muni væntanlega koma hingað aftur,“ segir Sigríður Björnsdóttir, verkefnisstjóri samtakanna Blátt áfram, um innbrotsþjóf eða -þjófa sem létu greipar sópa um nýtt húsnæði samtakanna aðfaranótt þriðjudags.

Blátt áfram eru forvarnasamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. Þau fluttu nýverið skrifstofu sína niður í Skeifu, nánar tiltekið í Fákafen.

Þegar Sigríður mætti til starfa á þriðjudagsmorgun blasti við henni hurð sem hafði verið sparkað upp svo lásinn hékk ónýtur úti. Inni var allt á rúi og stúi og búið að stela tölvu, skjávarpa og DVD-spilara. Auk þess höfðu verið unnar skemmdir á innanstokksmunum.

Sigríður metur tjónið á minnst hálfa milljón, sem sé blóðugt fyrir lítil samtök sem reiði sig fyrst og fremst á frjáls framlög og sjálfboðavinnu. Ekkert af því sé tryggt. Sérstaklega blöskrar henni að það geti varla hafa dulist þjófunum af hverjum þeir voru að stela. Einnig var brotist inn hjá öðru fyrirtæki í sama húsi.

„Við vonum bara að fólk sjái að sér og skili hlutunum,“ segir Sigríður. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×