Innlent

Tuttugu þúsund eintök prentuð af þremur titlum

Velta vegna bókasölu eykst í ár eftir að hafa minnkað frá árinu 2007 og er annað stærsta útgáfuár sögunnar.
Velta vegna bókasölu eykst í ár eftir að hafa minnkað frá árinu 2007 og er annað stærsta útgáfuár sögunnar.
Velta vegna bókasölu eykst í ár eftir að hafa minnkað frá árinu 2007 og er annað stærsta útgáfuár sögunnar. Þrjár bækur hafa verið prentaðar í yfir tuttugu þúsund eintökum, þar af ein þýdd bók, sem er einstakt.

Árið í ár er annað stærsta útgáfuár sögunnar hér á landi, ef litið er til fjölda titla í Bókatíðindum. Velta vegna bókasölu eykst nú eftir að hafa minnkað frá metárinu 2007.

„Árið í ár er mjög flott bókaár að öllu leyti, um það eru flestir sammála. Það er gríðarlega mikið af vönduðum bókum sem höfða til margra," segir Kristján B. Jónasson, formaður Félags bókaútgefenda. Hann segir útgefendur á því að salan sé breiðari en mörg undanfarin ár. Mikið sé af stórum höfundum og margir titlar berjist um athyglina.

„Samkeppnislega eru þetta einhver hörðustu jól á bókamarkaði lengi."

Kristján segir miklar breytingar hafa orðið á bókasölu síðan á tíunda áratug síðustu aldar. „Þetta er annar veruleiki en fyrir tíu árum. Það þótti frábær árangur að selja fimm þúsund eintök, og tíu þúsund eintök seldust ekki endilega um hver jól. Mest seldu bækurnar núna seljast í mun stærri upplögum." Hann segir jólin í ár einstök að því leyti að þrjár bækur, allar skáldskapur, hafi verið prentaðar í yfir tuttugu þúsund eintökum. Ein þessara bóka er þýðing á erlendri bók, Gamlingjanum, og það er sérstakt að slík bók sé ein mest selda bókin að sögn Kristjáns.

Bækurnar sem eru næstar á metsölulistunum hafa selst í minna en tíu þúsund eintökum. Undanfarin ár hafa bækur þurft að seljast í meira en fimm þúsund eintökum til þess að komast inn á listann.

Hagstofan hefur tekið saman heildarveltu á bókamarkaði og stærsta árið hingað til er 2007. Þá var veltan rétt tæpir fimm milljarðar króna, en hefur minnkað á hverju ári síðan og í fyrra var hún um 4,7 milljarðar. Samdrátturinn hefur því verið um þrjú hundruð milljónir. Kristján segir almennt álitið að þessi upphæð hækki á nýjan leik í ár. Þar spili inn í sterkur heilsársmarkaður á kiljum, lífleg sumar- og haustsala, og að bókavertíðin hafi farið fyrr af stað en vant sé. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×