Innlent

Páfagaukspiltur stal pólskum seðlum

Pilturinn kom meðal annars við í starfsmannaaðstöðu í kjallaranum í Hörpu í þessari brotahrinu sem hann hefur nú verið dæmdur fyrir. Þar stal hann, ásamt tveimur félögum sínum, áfengi og veski með pólskum seðlum.
Pilturinn kom meðal annars við í starfsmannaaðstöðu í kjallaranum í Hörpu í þessari brotahrinu sem hann hefur nú verið dæmdur fyrir. Þar stal hann, ásamt tveimur félögum sínum, áfengi og veski með pólskum seðlum.
Tvítugur piltur hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjölmörg þjófnaðarbrot. Sakaferill hans er orðinn æði langur þótt hann sé ungur að aldri.

Í janúar á þessu ári var pilturinn ákærður fyrir það meðal annars að hafa svikið út páfagaukinn Húgó, búr og fóður fyrir rúmlega hálfa milljón króna úr Furðufuglum. Þá var hann dæmdur í tuttugu mánaða fangelsi, þar af sautján mánuði skilorðsbundna.

Brotin sem pilturinn er dæmdur fyrir nú eru allmörg. Í mars braust hann inn í íbúðarhúsnæði og stal þar tækjum og búnaði fyrir rúmlega 1,3 milljóna króna. Þá braust hann inn í fyrirtæki, lét þar greipar sópa og stal loks bíl. Nokkrum dögum síðar braust hann inn í tvö sumarhús. Í maí héldu hann áfram með þjófnaði á sígarettum úr söluturni. Í júlí fór hann inn í fjóra ólæsta bíla í Kópavogi og stal svo þeim fimmta.

Í félagi við tvo aðra stal hann veski með pólskum seðlum og allt að þrjátíu vodkaflöskum í starfsmannaaðstöðu í Hörpu. Í október braust hann þrisvar inn, þar á meðal í Hafið bláa, þar sem hann og félagi hans stálu fjörutíu flöskum af sterku áfengi, fjörutíu af léttvíni og 120 bjórflöskum.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×