Innlent

Síminn vill að símhleranir færist yfir til lögreglunnar

Síminn hefur þá skyldu samkvæmt fjarskiptalögum að aðstoða lögreglu við framkvæmd símhlerana. Starfsmenn fyrirtækisins tengja búnað lögreglu við símkerfi í þessum tilgangi að fengnum dómsúrskurði.
Síminn hefur þá skyldu samkvæmt fjarskiptalögum að aðstoða lögreglu við framkvæmd símhlerana. Starfsmenn fyrirtækisins tengja búnað lögreglu við símkerfi í þessum tilgangi að fengnum dómsúrskurði.
Síminn hefur ritað innanríkisráðuneytinu bréf þar um að fjarskiptafyrirtæki séu losuð undan því að annast tengingar þegar símhleranir eru notaðar við rannsóknir sakamála. Lögregla sjái um málin sjálf.

Síminn hf. hefur sent bréf til innanríkisráðuneytisins, þar sem óskað er eftir því að verkefni löglegra símhlerana verði fært alfarið frá fjarskiptafyrirtækjum og til lögreglu. Nauðsynlegur tæknibúnaður verði settur upp í þeim tilgangi.

Þetta segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, og bætir við að fyrirtækið sætti sig ekki við að trúverðugleiki þess sé dreginn í efa þegar það hafi alfarið tryggt að verkferlar löglegrar hlerunar séu í samræmi við það sem til sé ætlast. Starfsmenn fjarskiptafyrirtækja njóti ekki sömu réttarstöðu og opinberir starfsmenn og ekki sömu verndar þótt þeim sé skylt að vinna fyrir lögreglu í hlerunarmálum. Áhersla sé lögð á að tryggja þurfi öryggi þeirra. Auk hins skriflega erindis hefur Síminn komið þeirri ósk á framfæri við Póst- og fjarskiptastofnun að lögleg hlerunarverkefni verði alfarið færð frá fjarskiptafélögunum. Tæknilega sé mögulegt að hlerun fari fram hjá lögreglu án þess að starfsmenn fyrirtækjanna komi þar nærri.

„Við skiljum svar PFS svo að þar á bæ sé vilji til að finna annan flöt á núverandi fyrirkomulagi,“ útskýrir Sævar Freyr. „Stofnunin óskaði eftir því við Símann að skoðað verði hvernig setja megi upp tækniumhverfi sem geri lögreglu mögulegt að hlera án aðkomu starfsmanna fjarskiptafyrirtækja og það kynnt viðeigandi aðilum.“

Tvö hlerunarmál hjá Símanum hafa verið til umfjöllunar í Fréttablaðinu að undanförnu. Annars vegar var starfsmaður sakaður um að hafa hlerað farsíma fyrrverandi maka.

Hins vegar er fyrrverandi starfsmaður Skipta grunaður um að hafa gefið upplýsingar um hleranir út fyrir fyrirtækið. „Hvað varðar fyrrnefnda málið hefur Póst- og fjarskiptastofnun haft það til skoðunar,“ segir Sævar Freyr.

„Rannsókn Símans leiddi í ljós að ásakanir um að starfsmaður hefði hlerað ættu ekki við rök að styðjast. Lögregla hefur síðarnefnda málið til rannsóknar. Hún hefur upplýst að þeir sem aðstoði við framkvæmd hlerana hjá Símanum liggi ekki undir grun. Jafnframt hefur hún staðfest við okkur að hún geri ekki athugasemdir við framkvæmd Símans í tengslum við hleranir lögreglu. Við teljum að þeir starfsmenn okkar sem eru tengiliðir lögreglu vegna hlerana hafi sinnt hlutverki sínu af fullri trúmennsku við rannsóknaraðila og fullkomlega í samræmi við þá lagaskyldu sem hvílir á Símanum vegna hlerana.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×