Innlent

Upplýsinganefnd fær lögfræðing til starfa

Ragnhildur Arnljótsdóttir
Ragnhildur Arnljótsdóttir
„Það er eitt af okkar forgangsmálum að vinna á þessum hala,“ segir Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, um tafir á afgreiðslu kærumála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram að úrskurðarnefndin var sextán mánuði að úrskurða í kæru blaðsins vegna synjunar menntamálaráðuneytisins á afhendingu gagna tengdum deilum í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Sagði formaður nefndarinnar, Trausti Fannar Valsson, þetta óhæfilega langan málsmeðferðartíma. Eðlilegur tími væri frá einum og hálfum mánuði upp í þrjá mánuði. Ástæðan fyrir töfunum væri skortur á mannafla.

„Eftir fund með formanni nefndarinnar var brugðist við með því að auglýsa eftir lögfræðingi sem við reiknum með að taki til starfa í byrjun janúar,“ segir Ragnhildur. Hún kveður markmiðið að starfsmaðurinn geti helgað sig því hlutverki að vera starfsmaður úrskurðarnefndarinnar. Því hefur hingað til aðeins verið sinnt í hlutastarfi.

Ragnhildur segir að formaður úrskurðarnefndarinnar hafi undanfarnar vikur, í samráði við ráðuneytið, falið nokkrum lögfræðingum að undirbúa úrskurði í málum til að freista þess að vinna á málahalanum.

„En fyrst og fremst höldum við að það sé mikilvægt að við tryggjum að hér sé starfsmaður sem geti sinnt þessu sem aðalverkefni. Oft er eðli þessara mála þannig að það er áríðandi að niðurstaða fáist sem fyrst,“ segir Ragnhildur og bendir á að upplýsingarnar sem kærumálin snúist um kunni að verða gagnslitlar ef málin tefjist of lengi. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×