Innlent

Hugmyndir um makríl fráleitar

Útflutningsverðmæti makríls losar 30 milljarða á þessu ári.
Útflutningsverðmæti makríls losar 30 milljarða á þessu ári. fréttablaðið/óskar
„Hugmyndir um fjögurra prósenta hlut Íslands í makrílveiðum eru fráleitar og ekki í neinu samræmi við kröfur okkar um réttmæta hlutdeild úr makrílstofninum,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, á heimasíðu sambandsins.

Í yfirlýsingu hagsmunaaðila í sjávarútvegi í Noregi og ESB, sem birt var á vef norskra útvegsmanna, segir að þeir sætti sig við að Ísland fái í mesta lagi fjögur prósent heildaraflans í sinn hlut. Undanfarin ár hefur hlutur Íslands í heildarveiðinni verið 16-17 prósent og hugmyndir Íslendinga í viðræðum um auðlindina hafa tekið mark af því.

1,1 milljón tonn af makríl mældist innan íslensku lögsögunnar í rannsóknarleiðangri sem farinn var í sumar. Það er svipað magn og mældist í sambærilegum leiðangri árið áður. Friðrik segir „dylgjur hagsmunaaðila í Noregi og ESB um ósjálfbærar veiðar Íslendinga ómaklegar ekki síst þegar horft er til þess að þessir aðilar hafi fyrir síðustu vertíð tekið sér 90 prósent þess magns sem Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til að heimilt yrði að veiða“. Ekki hafi verið horft til hagsmuna annarra strandríkja við þá ákvörðun og hún því verið bein ávísun á ofveiði úr stofninum.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×