Innlent

Íslandsvasi til sölu á 2 milljónir

Jóhann Hansen
Jóhann Hansen
glæsilegur Myndin á vasanum glæsilega var máluð á 19. öld.
„Þetta er stórmerkilegur gripur,“ segir Jóhann Hansen hjá Gallerí Fold um postulínsvasa með mynd af Bessastöðum sem er til sölu hjá danska uppboðshaldaranum Bruun Rasmussen.

Verðið á vasanum er á bilinu ein og hálf til tvær milljónir íslenskra króna. Myndin á vasanum var máluð á 19. öld af Dananum F. T. Kloss þegar hann kom til Íslands ásamt Friðriki Danakonungi. Talið er að tveir vasar hafi verið gerðir en annar þeirra brunnið hjá konungsfjölskyldunni. Hinn var gefinn Scheel-fjölskyldunni, sem er núna að selja gripinn og lýkur uppboðinu í dag.

„Hann myndi sóma sér vel, til dæmis, á Bessastöðum. Þetta er gullfallegur vasi, stórglæsilegur og örugglega merk heimild,“ segir Jóhann. Hann bætir við að nokkuð mörg verk eftir sama listmálara liggi eftir hann frá þessari Íslandsferð árið 1834.

Spurður út í verðmatið á vasanum telur Jóhann að það sé hæfilegt. „Þessi vasi hefur kannski meiri þýðingu fyrir Ísland og Íslendinga en til dæmis einhvern Dana. Ég held að forsetaembættið hafi engar leiðir til að kaupa svona en það væri ráð ef einhverjir myndu slá saman og bjóða í þetta fyrir embættið.“

Listasafn Íslands fer með öll mál varðandi listaverk á Bessastöðum og öðrum opinberum stöðum. Þar á bæ kannaðist enginn við postulínsvasann glæsilega og ekki heldur forsetaritarinn Örnólfur Thorsson. „Við höfum nú ekki ráðrúm til þess að kaupa mikið þessa dagana,“ segir hann. - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×