Innlent

Hátt í hundrað ný tilfelli á hverju ári

Búlimía er algengari greining en anorexía meðal sjúklinga sem eru 18 ára og eldri og leita sér hjálpar á Hvítabandi Landspítalans.fréttablaðið/stefán
Búlimía er algengari greining en anorexía meðal sjúklinga sem eru 18 ára og eldri og leita sér hjálpar á Hvítabandi Landspítalans.fréttablaðið/stefán
Nýgengi átröskunarsjúkdóma hér á landi hefur haldist svipað undanfarin fimm ár. Síðan í janúar síðastliðnum hafa 79 einstaklingar leitað til geðdeildar Landspítalans vegna átröskunar, segir Sigurlaug María Jónsdóttir, sálfræðingur í átröskunarteymi spítalans á Hvítabandinu. Árið 2008 jókst nýgengið verulega, en þá leituðu fleiri en 100 einstaklingar eftir greiningu og meðferð.

Teymið sinnir átröskunarsjúklingum sem eiga við anorexíu og búlimíu að stríða. Sigurlaug segir um helming þjást af búlimíu, en um 10 til 20 prósent af anorexíu. Um 30 til 40 prósent fá greininguna óskilgreinda átröskun.

Hún segir það vart þekkjast hér á landi að sjúklingar láti lífið úr átröskunarsjúkdómum.

„Það þekkist ekki hér að banameinið sé átröskun eða anorexía. Aðrir þættir sem fylgja í kjölfarið, eins og kvíði, þunglyndi, áfengis- og vímuefnavandi, sjálfsskaðandi hegðun og vandamál við félagsleg samskipti, geta leitt til mikillar vanlíðunar og sjálfsvíga í einstaka tilfellum. Því er nauðsynlegt að vinna samhliða með þetta allt.“

Um 70 einstaklingar eru í einhvers konar meðferð á Hvítabandinu í dag. Sumir koma tvisvar til þrisvar í viku, aðrir eru í reglubundnu eftirliti og eftirfylgd. Þá er aðstandendum sjúklinga einnig sinnt markvisst með viðtölum og meðferð, en um 15 til 20 fjölskyldur eru í tengslum við deildina.

Komur átröskunarsjúklinga á BUGL hafa verið á bilinu 14 til 28 á síðustu tíu árum. Komur í ár hafa verið heldur fleiri en í fyrra, segir Margrét Gísladóttir, geðhjúkrunar- og fjölskyldufræðingur og teymisstjóri átröskunarteymis á göngudeild.

Líkt og á Hvítabandinu leggjast fæstir sjúklinganna inn á spítalann en mikill meirihluti þeirra er stúlkur. Aldursbilið er frá 13 til 17 ára, þó að í sumum tilvikum séu sjúklingar yngri, en það er ekki algengt. Fleiri sjúklingar fá greininguna anorexíu en búlimíu á BUGL.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×