Lífið

Aldrei fundið fyrir fordómum hér

Raúl Sáenz situr í fjölþjóðlegri stjórn Alþjóðatorgs þar sem sjö þjóðir eiga fulltrúa. Fréttablaðið/Anton
Raúl Sáenz situr í fjölþjóðlegri stjórn Alþjóðatorgs þar sem sjö þjóðir eiga fulltrúa. Fréttablaðið/Anton
Alþjóðatorg er alþjóðleg ungmennamiðstöð og samtök sem hafa verið starfrækt í Reykjavík í rúmt ár. Samtökunum er ætlað að aðstoða unga innflytjendur á Íslandi við félagslega aðlögun og styðja þá og fræða. Ungt fólk af erlendu bergi brotnu heldur að öllu leyti um stjórntaumana.

„Þetta er allt rekið af okkur, ungu fólki á aldrinum 16-30. Þetta er samt öllum opið – allir sem vilja taka þátt eru velkomnir,“ segir Raúl Sáenz, meðlimur í stjórn Alþjóðatorgs, en hann flutti til Íslands frá Mexíkó fyrir fimm árum.

„Þetta varð til í framhaldi af ráðstefnu þar sem 200 einstaklingar frá 100 löndum komu saman og létu í sér heyra um hvað við unga fólkið af erlendum uppruna á Íslandi sáum fyrir okkur. Það kom í ljós að langflestir vildu fá vettvang þar sem hægt væri að hitta aðra útlenska krakka til að styrkja sjálfsmyndina sem útlendingur á Íslandi, finnast vera hluti af einhverju og virkja hæfileika einstaklinganna sem töluðu hvorki góða íslensku né ensku.“

Raúl segir mikla þörf hafa verið fyrir samtökin því unga fólkið hafi oft verið óöruggt í félagslegum aðstæðum þar sem Íslendingar voru í meirihluta. Í stað þess að einangrast félagslega er stuðningur og vinátta í boði á Alþjóðatorgi. „Það er ekki Íslendingum að kenna, en okkur finnst óþægilegt að vera einhvers staðar þar sem langflestir eru Íslendingar og töluð er fullkomin íslenska. Við getum ekki komið okkur á framfæri eða sagt það sem við viljum segja. Við erum feimin og hrædd um að tala ekki nógu góða íslensku. Okkur vantaði svona vettvang einsog Alþjóðatorg til að bæta sjálfsmynd okkar til að vera sterk fyrst sem útlendingar á Íslandi sem hafa hæfileika frá heimalandi sínu og bæta svo við hæfileikum sem við þróum í nýju landi.“

Hann kannast þó ekki við að Íslendingar séu fordómafullir. „Satt að segja hef ég aldrei fundið fyrir fordómum. Við höfum talað mikið um þetta og það er ekki okkar tilfinning að Íslendingar séu fordómafullir. Menningin er bara öðruvísi eins og í öllum menningarheimum. Þið eruð aðeins feimin og það er hægt að mistúlka það sem fordóma. Ég held það sé bara eðli Íslendinga að vera ekki beint lokaðir, en kannski kaldir. En það er sjaldan að maður heyri að ráðist sé á fólk vegna uppruna síns.“

Alþjóðatorg stendur fyrir fjölbreyttri dagskrá og nú um helgina fer rúta frá Reykjavík til Akraness þar sem nepölsk Tihar-hátíð fer fram. Raúl hvetur alla sem hafa áhuga til að skoða fésbókarsíðu samtakanna til að kynna sér starfsemina og komast í samband við aðra meðlimi. „Við erum orðin mun meira en bara stofnun eða samtök. Okkur finnst gaman að taka þátt í samfélaginu og vera virk í því. Og það hefur tekist sem okkur langaði fyrst og fremst, að fólki gæti liðið hér vel, haft trú á sjálfu sér, kynnst fólki og ræktað með sér alvöru vináttu.“

bergthora@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.