Lífið

Ísak í ævintýraferð í New York

Förðunarfræðingurinn Ísak Freyr Helgason er nýkominn heim eftir tveggja mánaða dvöl í New York, þar sem hann farðaði meðal annars fyrir tískuritið Elle og fatamerkið threeASFOUR.fréttablaðið/HAG
Förðunarfræðingurinn Ísak Freyr Helgason er nýkominn heim eftir tveggja mánaða dvöl í New York, þar sem hann farðaði meðal annars fyrir tískuritið Elle og fatamerkið threeASFOUR.fréttablaðið/HAG
„Það var alveg sjúklega gaman og ég er algjörlega ástfanginn af borginni,“ segir förðunarfræðingurinn Ísak Freyr Helgason, sem er nýkominn heim eftir tveggja mánaða dvöl í New York.

Ísak hélt utan í ævintýraleit og til að kanna tískubransann úti, en hann datt beint inn í tískuvikuna í New York. Þar farðaði hann meðal annars fyrir sýningu bandaríska fatamerkisins threeASFOUR og aðstoðaði Andreu Helgadóttur förðunarmeistara, sem meðal annars sér um förðun Bjarkar Guðmundsdóttur og hefur búið og starfað í New York lengi. „Það var frábært að koma og geta verið með Andreu. Ég leigði mér meira að segja íbúð fyrir neðan hana í Williamsburg í Brooklyn, sem var æði,“ segir Ísak, en hann fór meðal annars með Andreu í myndatöku fyrir tískutímaritið Elle.

„Það var mikil upplifun fyrir mig að fá að vera með Andreu og hún vildi helst ekki að ég færi aftur heim,“ segir Ísak og bætir við að hann hafi notið sín vel úti. „Ég kom eiginlega beint frá dönsku tískuvikunni og þrífst mjög vel í stressinu sem myndast baksviðs á sýningum. Það er svo mikið adrenalínkikk og ég ætla að reyna að fara aftur út á næsta ári til að þræða tískuvikurnar.“

Ísak heillaðist af New York og getur vel hugsað sér að búa þar en það er einnig brjálað að gera hjá honum hérna heima. „Ég er búinn að bóka mig í fullt af myndatökum næstu mánuði en langar mikið að fara aftur út. Það er aldrei dauður tími í New York og alltaf eitthvað að gerast. Maður getur alveg vanist því.“- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.