Íslenski boltinn

Engin hljóðfæri í stúkunni á KR-vellinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Án Stuðsveitarinnar Eyjamenn verða að spjara sig án Stalla-Hú í kvöld.
Án Stuðsveitarinnar Eyjamenn verða að spjara sig án Stalla-Hú í kvöld. Fréttablaðið/Anton
Reiknað er með góðri mætingu á KR-völlinn í kvöld en ljóst að áhorfendur verða að láta hendur og raddbönd nægja til þess að styðja sín lið. Á KR-vellinum ríkir hljóðfærabann sem þýðir að meðlimir stuðningsbands ÍBV, Stalla-Hú, þurfa að skilja hljóðfæri sín eftir heima.

„Auðvitað er það leiðinlegt en þetta er þeirra völlur og maður skilur þetta. Það er samt kaldhæðnislegt að banna hljóðfæri í Frostaskjólinu og samt er tónlistarskóli í íþróttahúsinu þeirra. Við fylgjum öllum reglum en þetta er hluti af stemningunni. Flest lið eru með trommur eða lúðra en KR-ingarnir vilja banna þetta,“ segir Skapti Örn Ólafsson, forsprakki Stalla-Hú.

„Við vorum að grínast með það að Miðjan [stuðningsmenn KR] væri hrædd um að tapa stúkunni. Þeir eru bara í einhverju miðjumoði á meðan við sækjum fram með hljómsveitinni okkar,“ bætir Skapti við í léttum dúr.

Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, segir félagið hafa tekið þessa ákvörðun fyrir nokkrum árum þegar hinn almenni stuðningsmaður var farinn að kvarta yfir trommuslætti og öðrum ófögnuði á leikjum. Hann segir engan ákveðinn leik hafa fyllt mælinn.

„Nei, ekkert svoleiðis. Við ákváðum þetta bara fyrir tímabilið 2008 eða 2009 að það væri komið nóg af tónleikum. Menn yrðu bara að nota röddina og það höfum við gert síðari ár. Við vorum með trommur í miðri stúkunni en hættum því í leiðinni. Við látum jafnt yfir alla ganga,“ segir Jónas.

„Það er leiðinlegt að geta ekki farið með bandið okkar á stærsta og flottasta völl á Íslandi. En við mætum hvítklæddir og hvetjum okkar lið,“ segir Skapti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×