Lífið

Frostrósa-aðdáendur vilja hitta Jóhönnu

Fáir leggja sennilega jafnmikið á sig til að komast á Frostrósir og þeir Craig Murray og Darryl Brown. Þeir ætla að koma aftur í ár og vilja jafnframt eiga fund með Jóhönnu Sigurðardóttur.
Fáir leggja sennilega jafnmikið á sig til að komast á Frostrósir og þeir Craig Murray og Darryl Brown. Þeir ætla að koma aftur í ár og vilja jafnframt eiga fund með Jóhönnu Sigurðardóttur.
„Við höfum verið saman í tuttugu ár og það er ein af ástæðum þess að við ætlum að koma aftur. Svo verð ég líka fimmtugur um þetta leyti,“ segir Craig Murray, Frostrósa-aðdáandi númer eitt frá Ástralíu.

Fréttablaðið greindi frá því í fyrra þegar Murray og sambýlismaður hans, Darryl Brown, komu sérstaklega til Íslands til að fara á jólatónleika Frostrósa. Þeir félagar voru himinlifandi með ferðina hingað og ákváðu að endurtaka leikinn í ár. Craig upplýsir meðal annars að þeir ætli sér að dvelja ögn lengur en síðast. „Við erum að vonast til að komast á tónleikana í Reykjavík þótt tónleikarnir á Akureyri hafi verið mjög fínir á síðasta ári,“ segir Craig. Fréttablaðið hafði samband við Samúel Kristjánsson hjá Frostrósum til að forvitnast fyrir um hvenær tónleikarnir færu fram en hann sagði nákvæma tímasetningu ekki vera komna. „Hins vegar eiga Frostrósir tíu ára afmæli í ár og það má því búast við einhverjum herlegheitum í kringum þau tímamót.“

Craig og Darryl hlakka hins vegar mikið til ferðarinnar til Íslands og Craig segir að þá langi mikið til að hitta eina manneskju. „Okkur langar mikið til að hitta forsætisráðherrann ykkar, Jóhönnu Sigurðardóttur. Við urðum svo glaðir þegar við heyrðum af því að hún hefði gengið að eiga sambýliskonu sína. Það yrði virkilega skemmtilegt ef við gætum komist á hennar fund.“

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.