Lífið

Let England Shake sýnd á RIFF

Kvikmyndin Let England Shake, sem samanstendur af tólf stuttmyndum við lög samnefndrar plötu PJ Harvey, verður sýnd á RIFF sem hefst í næsta mánuði.
Kvikmyndin Let England Shake, sem samanstendur af tólf stuttmyndum við lög samnefndrar plötu PJ Harvey, verður sýnd á RIFF sem hefst í næsta mánuði. Nordicphotos/Getty
Kvikmyndin Let England Shake verður sýnd í flokki tónlistarmynda á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem hefst 22. september næstkomandi. Let England Shake er samansett úr tólf stuttmyndum sem hver og ein á við samsvarandi lag á samnefndri plötu PJ Harvey sem kom út fyrr á árinu.

Efni plötunnar snýst í aðalatriðum um bölið sem stríðsrekstur er fyrir þjóðir heims, og sækir hún innblásturinn ekki síst til hörmunga fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Það þótti því ríma vel við umfjöllunarefnið að fá fréttaljósmyndarann Seamus Murphy til að leikstýra stuttmyndunum tólf. Harvey sá sýningu Murphy með myndum frá Afganistan og öðrum stríðshrjáðum ríkjum í Mið-Austurlöndum meðan á upptökum plötunnar stóð og ákvað hún þegar í stað að fá hann til liðs við sig. Murphy er margverðlaunaður fréttaljósmyndari en Let England Shake er fyrsta verkefnið af þessu tagi sem hann tekur að sér.

Aðrar myndir í flokki tónlistarmynda á RIFF 2011 eru LENNONYC eftir Michael Epstein, Scenes From The Suburbs eftir Spike Jonze sem byggir á plötu Arcade Fire, The Suburbs; In the Garden of Sounds eftir Nicola Bellucci, Beats, Rhymes & Life sem segir frá hljómsveitinni A Tribe Called Quest, The Miners‘ Hymns sem skartar tónlist Jóhanns Jóhannssonar, Mr Carey‘s Concert eftir Bob Connolly og Sing Your Song sem fjallar um söngvarann og mannréttindafrömuðinn Harry Belafonte.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.