Lífið

Smellur Larsens í íslenskri mynd

„Lagið smellpassar inn í myndina," segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Á annan veg, sem verður frumsýnd 2. september.

Hafsteinn og félagar fengu á dögunum leyfi til að nota lagið Midt om natten eftir danska tónlistarmanninn Kim Larsen í mynd sína. „Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem er veitt leyfi til að nota lagið, fyrir utan í kvikmyndinni Midt om natten," segir Hafsteinn.

Midt om natten er í miklu uppáhaldi hjá Hafsteini. Hann bað framleiðendur kvikmyndarinnar Á annan veg að útvega leyfi til að nota lagið og því var haft samband við útgáfurisann EMI, sem sér um þau mál fyrir Larsen. Þar á bæ voru menn ekki bjartsýnir. „Svo skrifuðu þeir til baka, alveg gáttaðir á að hann hafi gefið leyfi og að hann hefði aldrei gert það áður. Það hefur margoft verið beðið um lagið," segir Hafsteinn.

En kanntu einhverja skýringu á skyndilegri viðhorfsbreytingu Larsens?

„Nei. Ætli við höfum ekki hitt á hann á góðu mómenti, á kránni á föstudagseftirmiðdegi eða eitthvað svoleiðis. Hann hefur verið í stuði."

En svífur danskur andi yfir vötnum í myndinni?

„Nei. Hún er alveg rammíslensk."

Sýnishornið úr myndinni má sjá hér fyrir ofan en það var frumsýnt á Vísi í síðustu viku. Áhugasömum er einnig bent á Facebook-síðu myndarinnar fyrir nánari upplýsingar. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.