Lífið

Sendir frá sér nýtt lag í gamla stílnum

Nýr smellur á leiðinni Gylfi Ægisson og Sólmundur Hólm í hljóðveri við upptökur á Feðraveldinu, nýju lagi eftir Sólmund. Lagið fer í spilun í þessari viku eða þeirri næstu.Fréttablaðið/HAG
Nýr smellur á leiðinni Gylfi Ægisson og Sólmundur Hólm í hljóðveri við upptökur á Feðraveldinu, nýju lagi eftir Sólmund. Lagið fer í spilun í þessari viku eða þeirri næstu.Fréttablaðið/HAG
„Þetta er svona sveitastuðlag. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður heyrir það er hlöðuball,“ segir Sólmundur Hólm, grínisti og verðandi poppari.

Á næstu dögum sendir Sóli, eins og hann er jafnan kallaður, frá sér lag sem hann flytur með Gylfa Ægissyni. Eins og alþjóð veit skrifaði Sóli ævisögu Gylfa árið 2009. „Ég samdi lagið með okkur í huga,“ segir hann.

„Það hefur alltaf blundað smá poppari í mér og ég er mikið fyrir íslenska tónlist. Helst gamla íslenska tónlist, ég er ekki mikið að endurnýja mig,“ segir Sóli sem segist sannfærður um að ef lagið hefði komið út fyrir þrjátíu árum þá hefði hann orðið stórstjarna: „Þetta er gamaldagspopp en ég vona að það virki enn þá. Þegar Gylfi var stórstjarna hefði hann gert þetta að smelli. Hann hefði gaulað þetta blindfullur inni í Hljóðrita.“

Lagið kallast Feðraveldið og er tvísöngur feðga. Sonurinn syngur um galla föður síns og faðirinn svarar á móti. Sóli fullyrðir að lagið sé dramatískt en skemmtilegt. Hann segir að lagið sé ekki byggt á eigin reynslu, þó að skilnaðarbörn eins og hann sjálfur geti eflaust samsamað sig ýmsu sem fram kemur í textanum. „En pabbi minn er ekki eins slæmur og sá sem sungið er um í laginu,“ segir hann og hlær.

Sóli hefur getið sér gott orð fyrir eftirhermur sínar og er hann vinsæll skemmtikraftur á mannamótum. Einn af þeim sem hann hermir eftir er einmitt Gylfi Ægis svo það ætti ekki að reynast honum erfitt að flytja lagið opinberlega. „Nei, einmitt. Ég syng bara fyrir Gylfa líka. Ætli næsta skrefið verði svo ekki að taka upp lag með Pálma Gunnars? Eða Gunnari í Krossinum? Eða jafnvel Bjarna Fel?“

Aðspurður kveðst Sóli stefna að því að senda frá sér fleiri lög í framtíðinni. Hann eigi nokkrar hugmyndir í kollinum sem þarf að vinna meira með.

En hvernig fannst Gylfa lagið?

„Honum fannst það mjög gott, sagði að það væri létt og skemmtilegt. Enda gæti hann hafa samið það. Ég var líka pottþétt undir áhrifum frá Gylfa þegar ég samdi lagið. Ómeðvitað var ég kominn í síða leðurfrakkann hans.“

hdm@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.