Lífið

Ingó klárar fyrstu sólóplötu sína

Ingólfur er ekki lengur Ingó og Veðurguðirnir því hann hefur nú lagt lokahönd á sína fyrstu sólóplötu.
Ingólfur er ekki lengur Ingó og Veðurguðirnir því hann hefur nú lagt lokahönd á sína fyrstu sólóplötu. fréttablaðið/vilhelm
„Ég bara var að klára þetta,“ segir Ingólfur Þórarinsson tónlistarmaður en hann hefur nú lagt lokahönd á sína fyrstu sólóplötu.

Ingólfur, eða Ingó, hefur verið að vinna í plötunni síðastliðið hálft ár og nú eru ellefu lög tilbúin. „Ég hef verið að vinna í þessu milli verkefna og samið hér og þar,“ segir Ingó, sem segir lögin vera góða blöndu af gríni og alvöru. Hann semur sjálfur öll lögin og hefur svo notið aðstoðar Axels Árnasonar hjá Stúdíó Flex við að taka lögin upp. „Hann er frábær og við góðir saman,“ segir Ingó og bætir að hann hafi þegar fengið góð viðbrögð við lögunum.

„Þetta er tónlist fyrir alla aldurshópa og vinir og kunningjar sem ég hef leyft að heyra verið hrifnir. Lagið „Hún á mann“ hefur helst verið vinsælt og ég á von á að það slái kannski í gegn,“ segir Ingó en lögin fara væntanlega í spilun í útvarpinu síðar í þessum mánuði.

Ingó hefur hingað til verið betur þekktur sem hluti af sveitinni Veðurguðunum en líkar vel að vera einn síns liðs á sviðinu. „Það er gaman að prófa þetta. Að vera sinn eigin herra og vera sá eini sem getur tekið ákvarðanir. Þegar maður er í hljómsveit þurfa allir að hafa skoðanir og ráða.“

Ingó hefur verið iðinn við kolann í sumar og komið fram úti um allt land. „Ég hef spilað úti um allt í sumar. Bæði með Veðurguðunum og einn með gítarinn í einkasamkvæmum. Ég ætla svo að gera eitthvað í vetur til að fylgja plötunni eftir.“

- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.