Lífið

Helgi Björns bókar Hörpuna

Helgi Björnsson og fleiri stórsöngvarar flytja íslenskar dægurlagaperlur í Hörpu á þjóðhátíðardaginn. Mynd/Spessi
Helgi Björnsson og fleiri stórsöngvarar flytja íslenskar dægurlagaperlur í Hörpu á þjóðhátíðardaginn. Mynd/Spessi
Söngvarinn Helgi Björnsson blæs til stórtónleika Í Hörpunni á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Þar munu hann og fjölmargir þekktir tónlistarmenn flytja íslenskar dægurlagaperlur.

„Þetta verður æðislega grand,“ segir Helgi Björnsson á línunni frá Berlín. Helgi er búinn að bóka stóra salinn í Hörpunni á þjóðhátíðardaginn og þar ætlar hann að blása til glæsilegra tónleika.

 

„Yfirskrift tónleikanna er Íslenskar dægurperlur og við ætlum að leita víða fanga. Hugmyndin er að taka öll þessi lög sem hafa öðlast sjálfstætt líf, allt frá Brennið þið vitar til Fjöllin hafa vakað,“ segir Helgi. Söngvararnir sem koma fram með Helga eru ekki af verri endanum; Bogomil Font, Eivör Pálsdóttir, Högni Egilsson, Mugison og Ragnheiður Gröndal. Í hljómsveitinni verða trommuleikarinn Einar Valur, Valdi Kolli bassaleikari, gítarleikararnir Ómar Guðjónsson og Stefán Már Magnússon og píanóleikararnir Davíð Þór Jónsson og Kjartan Valdimarsson. Þá stýrir Roland Hartwell tólf manna strengjasveit og karlakór verður sömuleiðis á sviðinu. „Þetta er landsliðið í tónlist,“ segir Helgi kokhraustur.

 

Helgi segir að það sé öllum tónlistarmönnum hollt að leita aftur til upprunans og flytja lögin sem mótuðu þá. „Mér finnst eins og ég sé að loka ákveðnum hring með þessum tónleikum. Ég er búinn að vera að fást við gömlu lögin síðustu 2-3 árin með þessum reiðmannaplötum og svo Magga Eiríks plötunni. Ég hef haft bæði gaman og gott af því að horfa til baka, að skoða hver er grunnurinn undir manni sjálfum sem músíkant. Hvað mótaði mann. Þetta hafa menn líka verið að gera erlendis. Dylan hefur leitað aftur í sinn arf og Robert Plant hefur verið að taka kóver af lögum sem voru rætur hans. Ég hef gaman af þessari pælingu, hvað var okkar blús, hvar eru okkar rætur.“

 

Aðspurður segir hann ánægjulegt að geta haldið svona tónleika í Hörpunni og ekki sé verra að gera það á þjóðhátíðardaginn. „Það er smá standpína, smá þjóðarstolt. Það er ógeðslega spennandi að flytja allar þessar nostalgíuperlur.“

hdm@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.