Lífið

Foo Fighters endurfædd

Dave Grohl og félagar í Foo Fighters senda frá sér plötuna Wasting Light í næstu viku. Platan er mikið rokk og mikið ról, enda tekin upp af manninum sem tók upp Nevermind með Nirvana.

Við skulum hafa eitt á hreinu: Foo Fighters er ein farsælasta rokkhljómsveit heims. Ferillinn spannar sex breiðskífur sem hafa allar selst gríðarlega vel og miðað við móttökur á nýju lögum hljómsveitarinnar verður þeirri sjöundu einnig vel tekið.

Upptökur á Wasting Light hófust í ágúst í fyrra í bílskúr Dave Grohl. Upptökustjórinn Butch Vig sat við takkana, en hann er þekktastur fyrir að hafa stýrt upptökum á plötunni Nevermind með Nirvana. Það reyndist vera sögulegt samstarf og hefur eflaust haft einhver áhrif á þá ákvörðun Grohls að starfa með Vig. Sá síðarnefndi sagði í viðtali við MTV að aðeins hliðrænn búnaður hefði verið notaður við upptökur á Wasting Light. Stafræn tækni kom fyrst til sögunnar þegar platan var hljómjöfnuð, sem er lokaferlið.

Strákarnir í Foo Fighters hafa verið duglegir við að senda frá sér lög af plötunni. Hér fyrir ofan má sjá myndband við slagarann White Limo. Það kom út á dögunum og það er viðeigandi að rokkkóngurinn Lemmy úr Motörhead fari með stórt hlutverk í myndbandinu ásamt meðlimum Foo Fighters. Lagið er í harðari kantinum, sérstaklega miðað við það sem vinsælar rokkhljómsveitir eru að bjóða upp á í dag. Lagið Rope, sem er fyrsta smáskífa plötunnar, er öllu mýkra enda skaust það beint á topp rokklista Billboard þegar það kom út.

White Limo virðist hins vegar ætla að vera einhvers konar skilgreining á plötunni. Dan Martin, blaðamaður NME, fékk að hlusta á plötuna fyrir nokkrum vikum. Hann segir Foo Fighters sýna vígtennurnar á plötunni, lögin séu stærri og hljómurinn flottari. Hann gengur svo langt að segja að hljómsveitin sé endurfædd og bætir við að besta rokktónlistin sé stundum skemmtilega stelpuleg og Foo Fighters gangist við því.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.