Innlent

Þriðjungur eldri pilta hefur reykt gras þrisvar eða oftar

Samfélagsmál Þriðjungur pilta yfir átján ára aldri í íslenskum framhaldsskólum hefur reykt marijúana þrisvar sinnum eða oftar. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar sem unnin var af Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík.

Sambærileg rannsókn hefur verið gerð meðal framhaldsskólanema með reglulegu millibili frá árinu 2000. Niðurstöður rannsóknarinnar frá því í fyrra verða kynntar í dag.

Jón Sigfússon, framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar, segir rannsóknina sýna fram á mjög góðan árangur í vímuefnaforvörnum á undanförnum árum. „Ekkert samfélag sem við þekkjum í heiminum státar af jafngóðum árangri," segir hann. „Það að ná ölvunardrykkju úr 42 prósentum árið 1998 niður í 14 prósent árið 2010 er frábær árangur. Sama má segja um árangurinn í að minnka daglegar reykingar og fikt við hass."

Hass og marijúana hefur verið aðgreint í rannsókninni frá 2009 og má þar sjá að marijúananeysla eykst milli ára og er nú orðin talsvert meiri en hassneyslan. Að sögn Jóns helst marijúananeysla mjög í hendur við sígarettureykingar. „Sárafáir sem ekki hafa reykt sígarettur hafa prófað marijúana, kannski eðli málsins samkvæmt," segir Jón. Þá neyta strákar marijúana í mun ríkari mæli en stelpur.

Rannsókn sem gerð var meðal 16 til 19 ára ungmenna á Norðurlöndum árið 2009 leiddi í ljós að hvergi var neysla marijúana meiri en á Íslandi. Hér höfðu 22,6 prósent prófað marijúana, en næstar komu Færeyjar með 14,7 prósent. Einungis á Íslandi og í Finnlandi reyndist neysla marijúana algengari en hassneysla. - shAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.