Innlent

Gunnar í Krossinum verður yfirheyrður

Fyrrverandi forstöðumaður Krossins, verður yfirheyrður af lögreglu á næstunni. fréttablaðið/teitur
Fyrrverandi forstöðumaður Krossins, verður yfirheyrður af lögreglu á næstunni. fréttablaðið/teitur
Mál kvennanna sjö sem saka Gunnar Þorsteinsson, forstöðumann Krossins, um kynferðisbrot hefur nú verið lagt fram sem lögformleg kæra. Skýrslutökum hjá lögreglu er nær lokið, en búið er að tala við fimm konur. Gunnar verður kallaður í skýrslutöku í kjölfarið, en hann neitar öllum sökum.

Gunnar segist vera með málin í skoðun en ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvernig brugðist verði við. „Það verður bara að koma í ljós í fyllingu tímans,“ segir hann. „Þetta eru alvarlegar ærumeiðingar sem hér um ræðir.“

Gunnar hefur stigið til hliðar sem forstöðumaður Krossins og segist nú vera óbreyttur safnaðar-meðlimur. Hann átti fund með Ástu Knútsdóttur og tveimur öðrum einstaklingum fyrir hálfum mánuði. Fólkið, sem Ásta og Gunnar þekkja bæði, hafði hlustað á frásagnir kvennanna í húsnæði Drekaslóða áður en fundurinn fór fram. Gunnar segir fundinn ekki hafa gengið vel.

„Þar var mikil óbilgirni. Ég hef ekki talað við konurnar sjálfar um þessi mál, sem ég hefði viljað gera,“ segir hann. „Allan tímann hef ég beðið um að fá að hitta þær.“

Ólöf Dóra Bartels Jónsdóttir, ein kvennanna sem hefur kært Gunnar, segir þessi ummæli hans fráleit. Hann hafi aldrei óskað eftir fundi með neinni kvennanna.

„Einu skilaboðin sem ég hef fengið frá honum var köld kveðja í gegnum Facebook. Hún var ekki þess eðlis að hann væri að kalla eftir fundi,“ segir Ólöf Dóra. Hún er afar ánægð með aðkomu lögreglu og segir konurnar allar mjög ánægðar með þann farveg sem málið er komið í.

„En það sem skiptir mestu máli er að hann viðurkenni það sem hann gerði,“ segir Ólöf. Hún skrifaði atburðina í dagbók sína árið 1986 þegar hún segir Gunnar hafa beitt sig áreiti af ýmsum toga, bæði líkamlega og með óviðeigandi ummælum.

Í vitnisburði hennar kemur fram að munnlegt áreiti af hálfu Gunnars hafi byrjað þegar hún var 15 ára. Hann byrjaði að leita á hana líkamlega þegar hún var 19 ára. Séu vitnisburðir kvennanna sjö teknir saman spannar tímabilið um tuttugu ár, eða frá því um 1979 til ársins 2000.

Tvær þeirra voru 13 og 14 ára þegar meint brot áttu sér stað.

sunna@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×