Innlent

"Þetta er miklu meira en við bjuggumst við"

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Örtröð myndaðist í Pétursbúð í Reykjavík í dag enda ein af fáum búðum sem var með opið. Biðtíminn var allt upp í hálftími en kaupmannshjónin ætla að standa vaktina eins lengi og þarf.

Það voru einungis örfáar búðir á opnar á höfuðborgarsvæðinu í dag til dæmis Pétursbúð við Ránargötu en þar var stöðugur straumur af fólki þegar fréttastofa leit við um hálf fimm í dag. Röðin hlykkjaðist um alla búðina og biðu þolinmóðir viðskiptavinir í hátt í hálftíma eftir afgreiðslu þegar mest var.

Hvernig datt ykkur í hug að hafa opið á jóladag? „Þetta varð bara svoleiðis, þetta er þriðja árið í röð sem við gerum það en þetta er svolítið meira en við bjuggumst við - miklu meira," segja Björg Leifsdóttir og Baldvin Ragnarsson, eigendur Pétursbúðar.

Þau segja röðina ekki hafa stoppað síðan hálf eitt og eru þau sannfærð um að hafa bjargað jólamatnum hjá mörgum. En hvað er það aðallega sem fólk er að kaupa?

„Það er rjóminn, mjólkin og það vantaði meira að segja hangikjöt hjá mörgum en það er allt að verða búið hérna inni," segja þau.

Þá vilja þau uppfylla hlutverk sitt sem kaupmaðurinn á horninu með að þjónusta fólkið í hverfinu.

„Við lokum ekkert klukkan fimm, það verður opið á meðan einhver er. Við viljum ekki reka neinn í burtu, ef einhvern vantar eitthvað þá fær hann það sem hann vantar."

Og þau hafa engar áhyggjur af jólamatnum hjá sjálfum sér.

„Það er bara kalt borð síðan í gærkvöldi. Það var eldað vel í gær og síðan er það bara borðað kalt eða hitað upp í kvöld þegar við náum að loka," segja þau hjónin að lokum.

Þess má geta að verslunin Nesval á Melabraut á Seltjarnarnesi er opin til 21 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×