Innlent

Ræddu fjárlögin í sautján tíma samfleytt

Mynd/Egill
Fjárlagafrumvarpið var rætt á Alþingi í alla nótt en umræðan hófst klukkan hálf þrjú í gær og henni lauk ekki fyrr en klukkan hálf átta í morgun. Útgjöld ríkissjóðs aukast um fjóra milljarða samkvæmt breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar.

Meðal helstu breytinga sem meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til er tvö hundruð milljón króna aukafjárveiting til Landhelgisgæslunnar vegna tímabundinnar leigu á björgunarþyrlu, tæplega níutíu milljóna króna hækkun á framlögum til friðargæslu sameinuðu þjóðanna og þrjú hundruð milljóna króna aukaframlag til vegagerðarinnar til að endurbyggja brúna yfir Múlakvísl. Fjárheimild umboðsmanns skuldara er hækkuð um 455 milljónir króna þar sem málafjöldi hefur reynst mun meiri en upphaflega var gert ráð fyrir og þá er fjárheimild við rekstur Herjólfs hækkuð um hundrað þrjátíu og fimm milljónir króna.

Í heild hækka útgjöld ríkissjóðs um fjóra milljarða króna samkvæmt breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar.

Annarri umræðu um fjárlögin lauk klukkan hálf átta í morgun en umræðan hófst klukkan hálf þrjú í gær. Atkvæðagreiðsla fer fram í dag en að henni lokinni fer málið aftur til nefndar og loks í þriðju og síðustu umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×