Innlent

Frægur vegarkafli hverfur í sumar

Vegarkafli sem skipar sess í kvikmyndasögu Íslands verður aflagður í sumar. Þetta er jafnframt einn síðasti kafli þjóðvegakerfisins sem liggur í gegnum hlaðið á bóndabæ. Vegarkaflinn er á sunnanverðum Vestfjörðum og liggur um Skálanes, milli Kollafjarðar og Gufufjarðar.

Flutningabílstjóri á leiðinni milli Reykjavíkur og Patreksfjarðar, Kristinn Sigurjónsson, tók myndskeið, sem fylgir fréttinni, þegar hann ók um þennan kafla í febrúar fyrir tveimur árum. Það sýnir vel hversu mjór og hlykkjóttur þjóðvegurinn er á þessum kafla og með svo mörgum blindbeygjum að mælst er til þess að ekki sé ekið þarna nema á þrjátíu kílómetra hraða.

Það er líka sérstakt við veginn þarna að hann liggur um bæjarhlaðið á Skálanesi og svo nærri húsunum að flutningabílinn nánast sleikir gamla söluskálann og bensínafgreiðsluna sem Kaupfélag Króksfjarðar starfrækti til ársins 2000.

Staðurinn er hluti af kvikmyndasögu Íslands því þarna voru fyrir 20 árum tekin upp atriði í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, þegar kaupfélagsútbúið var ennþá í rekstri. Gísli Halldórsson og Sigríður Hagalín léku aðalhlutverkin eftirminnilega og þetta er eina íslenska kvikmyndin í fullri lengd sem tilnefnd hefur verið til Óskarsverðlauna.

En nú fer hver að verða síðastur að aka um gamla veginn þarna. Vegagerðin hefur ákveðið að leggja nýjan þriggja kílómetra langan vegarkafla fjær bænum og ofar í hlíðinni, malbikaðan, beinan og breiðan samkvæmt nútímastöðlum. Tilboð verða opnuð í næstu viku og á nýi vegurinn að vera tilbúinn innan tíu mánaða, fyrir 1. nóvember næstkomandi.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×