Lífið

Einari Ágústi eignaður FM-hnakkinn

Á föstudagskvöldið mætti Ásgeir Kolbeinsson í viðtal í spjallþátt Loga Bergmanns á Stöð 2. Hann var þar beðinn um að útskýra uppruna orðsins FM-hnakki en Ásgeir hefur lengi verið spyrtur við hnakka-menninguna. Að sögn Ásgeirs má rekja orðið til tónleika Skítamórals á Akureyri fyrir þrettán árum. Þá hafi Samúel Bjarki Pétursson kvikmyndagerðarmaður verið að túbera á sér hárið með hárblásara. Og þá á Einar Ágúst Víðisson, þáverandi meðlimur Skíta­mórals, að hafa sagt: „Hann er að blása á sér hnakkann, FM-hnakkann."

Einar Ágúst viðurkennir að hafa látið þessi orð falla, þeir hafi verið að missa af flugvél suður og lá mikið á. „Hann og Gunni Óla voru jafnlengi að hafa sig til."

Í júníbyrjun 2008 lýsti tónlistamaðurinn Barði Jóhannsson því yfir í viðtali við Fréttablaðið að hann væri höfundur orðsins „hnakki". Það hefði fyrst heyrst í útvarpsþættinum Ólafi. „Já við Henrik [Björnsson tónlistarmaður] fundum orðið upp á sínum tíma," sagði Barði þá. Þeir vildu hins vegar ekkert láta hafa eftir sér þegar Fréttablaðið hafði uppi á þeim í gær.

Ekki er hins vegar ólíklegt að orðið hafi flætt ómeðvitað milli þessara aðila því stjúpfaðir Einars Ágústar er bróðir pabba Barða. Og Einar Ágúst ætlar ekki að gera neitt sérstakt tilkall til þess.

„Frændi minn Barði er reyndar vel að þessu orði kominn." - fgg
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.