Lífið

Barði semur fyrir franskt nýstirni

Barði samdi tvö lög ásamt frönsku söngkonunni Juliette Katz, sem gefur út fyrstu plötuna sína í apríl.
Barði samdi tvö lög ásamt frönsku söngkonunni Juliette Katz, sem gefur út fyrstu plötuna sína í apríl.
Barði Jóhannsson samdi tvö lög fyrir franska söngkonu sem spáð er glæstum frama. Hann undirbýr nýja plötu Bang Gang.

„Ég var beðinn um að semja með þessari stelpu sem hafði fengið samning við Universal í Frakklandi," segir tónlistarmaðurinn Barði Jóhannsson.

Barði samdi lögin ásamt frönsku söngkonunni Juliette Katz, sem gefur út fyrstu plötu sína í apríl. Ástralska söngkonan Sia syngur með Juliette í öðru laginu, en sú fyrrnefnda hefur getið sér gott orð bæði sem söngkona og lagahöfundur. Hún samdi meðal annars þrjú lög á nýjustu plötu bandarísku söngkonunnar Christinu Aguilera. Þá er hún tilnefnd til Golden Globe verðlauna ásamt Aguilera og Samuel fyrir lagið Bound to You sem er í kvikmyndinni Burlesque. Loks hefur hún sungið með breska rafdúettnum Zero 7.

Hægt er að kynna sér Juliette Katz nánar á Myspace-síðu hennar.

Ýmislegt er fram undan hjá Barða á nýju ári og spurður hvenær ný plata sé væntanleg frá Bang Gang er svarið einfalt: „Með sumrinu." Barði sendi frá sér plötuna Best of Bang Gang fyrir áramót, en auk þess að innihalda nokkur af bestu lögum hljómsveitarinnar flytja listamenn á borð við Mammút, Dikta og Daníel Ágúst lög Bang Gang.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×