„Maður er bara mjög ánægður, ekkert annað hægt,“ segir Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi hjá ZikZak. Fyrirtækið var tilnefnt til 31 Eddu í ár og fór heim með ellefu á laugardagskvöldinu, sex fyrir Brim en fimm fyrir The Good Heart.
Það stefndi strax í mikla baráttu milli myndanna tveggja og flestir í salnum hafa eflaust verið reiðubúnir að veðja einhverjum krónum á það að nafn The Good Heart myndi koma uppúr umslaginu hjá iðnaðarráðherra þegar tilkynna átti um kvikmynd ársins. Enda var Dagur Kári búinn að hirða verðlaun fyrir bæði besta handrit og leikstjórn og hafði þar að auki hlotið Edduna fyrir tónlistana í Brim. En það var nafn Brim sem kom uppúr hattinum.
„Ég held að allir hafi bara verið mjög sáttir við skiptinguna, allavega voru þeir Dagur og Árni sáttir. Þetta var bara gott kvöld, við áttum þarna notalega kvöldstund og þetta hús íslensku óperunnar var klæðskerasniðið fyrir athöfn eins og þessa.“-fgg
