Innlent

Stóriðjuframkvæmdir að hefjast á Suðurnesjum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Smíði átján milljarða króna kísilverksmiðju í Helguvík verður boðin út í þessari viku. Um 150 manns fá vinnu við framkvæmdirnar, sem áætlað er að hefjist innan þriggja mánaða.

Þegar ritað var undir samninga í Keflavík í febrúar á þessu ári áttu framkvæmdir að hefjast síðastliðið vor. Verkefnið er þannig þegar búið að tefjast um hálft ár. Forsvarsmenn Íslenska kísilfélagsins skýra tafirnar með því að fallið hafi verið frá því að kaupa bræðsluofna frá Noregi en ákveðið að kaupa þá í staðinn frá Ítalíu og það hafi kallað á nýja samninga um fjármögnun.

Þeir samningar eru nú í höfn, að sögn Magnúsar Garðarssonar, forstjóra félagsins, og segir Magnús að smíði verksmiðjunnar verði boðin út í þessari viku.

Fjárfestingin nemur um átján milljörðum króna en aðaleigandi félagsins er bandaríska fyrirtækið Globe Speciality Metals. Magnús vonast til að framkvæmdir hefjist fljótlega á nýju ári, í febrúar eða mars, en þær kalla á um 150 manns í vinnu.

Verksmiðjan, sem verður á stærð við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, á að hefja rekstur haustið 2013 og verða þá til um 90 störf í fyrirtækinu. 65 megavött raforku verða keypt frá HS Orku og Landsvirkjun, en orkan verður notuð til að kynda tvo bræðsluofna, sem framleiða munu um 50 þúsund tonn af hrákísil á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×