Enski boltinn

Aguero: Tevez-málið er skömm fyrir alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero hefur líka fengið að kynnast því að þurfa að sitja á varamannabekknum.
Sergio Aguero hefur líka fengið að kynnast því að þurfa að sitja á varamannabekknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sergio Aguero segist vera mjög leiður yfir því að liðsfélagi hans og landi, Carlos Tevez, geti ekki náð sáttum við stjórann Roberto Mancini. Tevez neitaði að hlýða Mancini í Meistaradeildarleik á móti Bayern München í lok september og engin lausn er enn fundin í málinu.

„Því miður geta klúbburinn og Carlitos (Tevez) ekki fundið lausn í þessu máli og það er sárt fyrir mig að horfa upp á það. Það er mjög leiðinlegt fyrir mig sem bæði Argentínumaður og liðsfélagi hans," sagði Sergio Aguero en hann er nú staddur í heimalandinu þar sem argentínska landsliðið mætir Bólivíu og Kólumbíu í undankeppni HM 2014.

„Ég get samt ekki blandað mér í málið og farið að styðja annaðhvort Carlos eða klúbbinn því ég veit ekki hvað gerðist. Það eru bara þeir tveir sem vita hvað var í gangi en þetta mál er skömm fyrir alla," sagði Aguero.

Mancini segist vera tilbúinn að taka Carlos Tevez aftur inn í liðið ef leikmaður er tilbúinn að biðja hann afsökunnar en það virðist hinsvegar ekki vera á dagskránni hjá Tevez sem hefur ekki spilað með City-liðinu síðan í september.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×