Innlent

Íslandsvasinn sleginn á 3,5 milljónir - Gallerí Fold bauð fyrir þrjá aðila

Vasinn góði með myndinni af Bessastöðum.
Vasinn góði með myndinni af Bessastöðum.
Postulínsvasi með mynd af Bessastöðum var í gær seldur hjá danska uppboðshaldaranum Bruun Rasmussen. Kaupandinn greiðir 3,5 milljónir króna fyrir vasann.

„Þetta er stórmerkilegur gripur," segir Jóhann Hansen hjá Gallerí Fold um postulínsvasann en samkvæmt vefsíðunni Listapóstinum þá bauð starfsfólk gallerísins í vasann fyrir þrjá mismunandi aðila. Þrátt fyrir þennan mikla áhuga fékk enginn þeirra þó gripinn.

Myndin á vasanum var máluð á 19. öld af Dananum F. T. Kloss þegar hann kom til Íslands ásamt Friðriki Danakonungi. Talið er að tveir vasar hafi verið gerðir en annar þeirra brunnið hjá konungsfjölskyldunni. Hinn var gefinn Scheel-fjölskyldunni, sem var í gær að selja gripinn.

Vasinn myndi án efa sóma sér vel á Bessastöðum og hafa margir velt því fyrir sér hvort nokkur leið sé að vasinn endi þar. Listasafn Íslands fer með öll mál varðandi listaverk á Bessastöðum og öðrum opinberum stöðum. Þar á bæ kannaðist enginn við postulínsvasann glæsilega og ekki heldur forsetaritarinn Örnólfur Thorsson. „Við höfum nú ekki ráðrúm til þess að kaupa mikið þessa dagana," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×